144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég hef eins og þingmaðurinn sem flutti hér prýðilega góða ræðu sambærilegar áhyggjur af stefnunni sem er í þessu frumvarpi, þeirri stefnu að þvinga fólk sem margt hvert dettur enn dýpra niður í eitthvert svarthol. Mér fannst athyglisvert að heyra að hæstv. ráðherrann talaði ekki um þá sem fóru ekki í atvinnuúrræði. Hvað varð um það fólk? Hvað verður um það fólk sem fær enga aðstoð? Því er vísað til Mæðrastyrksnefndar, því er vísað til kirkjunnar og því er vísað til annarra aðila sem eiga að sjá um framfærslu þeirra, þá stjórnarskrárbundnu framfærsluskyldu sem við höfum gagnvart hvert öðru eða gagnvart þeim sem geta ekki séð sér farborða.

Mig langaði að spyrja þingmanninn að því hvað hún haldi að verði um þetta fólk. Er verið að þvinga fólk til þess til dæmis að láta setja sig í örorkumat? Er það lausn? Ég veit til þess að þegar fólk er búið að vera atvinnulaust lengi og það sér engan möguleika á að fá vinnu er eins og heimurinn hrynji. Mig langar að vita það hvort það hafi komið fram einhver úrræði til þess að byggja fólk upp sem hefur búið við langvarandi atvinnuleysi, og þá er ég að tala um raunverulega uppbyggingu í staðinn fyrir að setja yfir það enn eina ógnina sem felst í að (Forseti hringir.) eiga ekki möguleika á að fá peninga til þess að eiga fyrir mat.