144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:53]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnast vera mótsagnir í þessu hvað varðar það sem menn segja og síðan það hvað verið er að gera. Það er sagt að þetta sé gert til að hvetja fólk til virkni en á sama tíma er verið að skera niður til verkefna og til vinnumarkaðsúrræða. Síðan veltir maður því líka fyrir sér út frá hverju menn ganga þegar svona frumvarp er lagt fram. Ef menn væru að setja meiri kraft í vinnumarkaðsúrræði og þetta snerist um það, þ.e. einhverja pósitífa nálgun, þá liti málið kannski svolítið öðruvísi út. En hér er ekki um það að ræða.

Í umsögn um frumvarpið kemur fram að þetta muni spara sveitarfélögunum talsverða fjármuni. Mér finnst útgangspunkturinn í þessu öllu saman vera þess eðlis að nefndin þurfi að skoða betur hvort ekki megi nálgast málið með pósitífari hætti til þess líka að fólki finnist það ekki vandræðalegt eða óþægilegt eða að það skammist sín fyrir það að þurfa að sækja sér fjárhagsaðstoð, heldur að það viti að það (Forseti hringir.) er allt í lagi vegna þess að það á rétt á því í ákveðnum aðstæðum og líti þannig á það.