144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:56]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég verð að viðurkenna að ég undrast töluvert þá umræðu sem hér á sér stað og mig langar að taka þátt í umræðu um 2. gr. þar sem stendur skýrt og skorinort, með leyfi forseta:

„Sveitarstjórn er heimilt að setja í reglur um veitingu fjárhagsaðstoðar samkvæmt 21. gr. skilyrði um virka atvinnuleit sem einstaklingur, sem telst vinnufær að hluta eða fullu, skal uppfylla til að eiga rétt á grunnfjárhagsaðstoð og/eða fjárhagsaðstoð vegna sérstakra aðstæðna. Óheimilt er að skilyrða fjárhagsaðstoð til annars en umsækjanda sem metinn er vinnufær að hluta eða að öllu leyti.“

Um þetta snýst 2. gr. frumvarpsins, að sá aðili sem leitar til sveitarfélagsins um fjárhagsaðstoð en er metinn vinnufær að hluta eða að öllu leyti þarf að gangast undir þessar skilyrðingar, aðrir ekki. Ef einstaklingur sem sækist eftir fjárhagsaðstoð hjá sveitarfélagi er vinnufær að hluta eða að fullu, af hverju í ósköpunum á ekki að virkja þann einstakling og aðstoða hann við að fá sér vinnu? Hvað er athugavert við það?

Við tölum um að vera virkur þegn í samfélaginu. Virkur þegn í samfélaginu er ekki sá sem ekkert gerir og stendur utan við. Það er verið að reyna að virkja fólk til þátttöku og einstaklingurinn er að fullu vinnufær eða að hluta og þá fer allt á annan endann um að það eigi að skilyrða að hann taki þátt í virkniúrræðum til að fá fjárhagsaðstoð sveitarfélags. Ég viðurkenni bara fúslega að ég næ ekki þeirri nálgun sem hér hefur verið við þessa viðbótargrein í frumvarpinu.

Fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er ekki bætur og hefur aldrei talist til bóta. Hún er aðstoð við fólk sem einhverra hluta vegna þarf á henni að halda, oftast nær tímabundið, fæstir til langframa. Þar sem ég þekki til eru, eins og fram hefur komið í umræðunni, menntaðir félagsráðgjafar til að sinna slíkum hlutverkum. Hjá flestum sveitarfélögum aðstoða félagsráðgjafar og vinna með þeim einstaklingum sem sækja þurfa fjárhagsaðstoð til sveitarfélaga. Það er gert ráð fyrir því í þessu frumvarpi að fjölga þeim til að veita þeim meiri og betri þjónustu sem þessi grein nær til. Er það slæmt? Nei. Er slæmt að fólk sem er vinnufært að fullu eða að hluta sé aðstoðað persónulega af félagsráðgjafa sveitarfélaga til að komast inn á vinnumarkaðinn? Nei. Er rangt að skilyrða fjárhagsaðstoðina ef fólk neitar slíku? Nei, að mínu mati er það ekki rangt.

Þess vegna segi ég enn og aftur að ég átta mig ekki á þeirri umræðu sem á sér stað um þessa grein. Mig langar hins vegar að velta fyrir mér 1. gr. þar sem stendur, með leyfi forseta:

„Ráðherra gefur árlega út leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, um framkvæmd fjárhagsaðstoðar auk viðmiðunarfjárhæða fyrir fjárhagsaðstoð.“

Mun hæstv. ráðherra, þegar kemur að þessum leiðbeinandi reglum til sveitarstjórna, taka mið af ólíkri búsetu fólks, hvar það býr á landinu? Mun þáttur eins og leiga húsnæðis, sem vegur kannski þyngra á einum stað en öðrum, skipta máli? Hvað ef fólk á húsnæði sem getur vel verið þó að það þurfi að leita tímabundið til sveitarfélags um fjárhagsaðstoð? Því er ekki neitað þó að það eigi húsnæði ef það eru tímabundnar aðstæður sem það lendir í. Mun hæstv. ráðherra að einhverju leyti taka mið af þessum þáttum? Við getum tekið húshitunarkostnað á köldum svæðum versus hitaveitu á öðrum svæðum. Mun hæstv. ráðherra einfaldlega setja einhverja ákveðna upphæð sem gildir þá um allt land?

Eins og hæstv. ráðherra sagði áðan yrði síðan hugsanlega hægt að fylgjast með og birta með hvaða hætti sveitarfélög horfa til þessara leiðbeinandi reglna. Ég er pínu hugsi yfir því vegna þess að reglurnar eru leiðbeinandi. Sjálfsforræði sveitarfélaga er klárt en af því að reglurnar eru leiðbeinandi, sveitarfélög geta tekið tillit til þeirra og eins og áður sagði munu sum kannski líta á upphæðina sem hámark en ekki lágmark, er síðan kannski birt einhvers staðar að sveitarfélög hagi sér svona og svona. Er refsivöndurinn af hálfu ráðuneytisins birtingarmyndin sem sýnir hvernig sveitarfélög taka tillit til eða fara eftir þeim leiðbeinandi reglum sem verið er að beita vegna þess að þetta er ekki skilyrt? Ef hæstv. ráðherra hefur velt þessum málum fyrir sér með einum eða öðrum hætti þætti mér vænt um að hann svaraði þeirri spurningu minni þegar hann tekur til máls á nýjan leik.