144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:06]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta er eiginlega orðið skondið með svör og andsvör vegna þess að sú sem hér stendur beindi fyrirspurn til hæstv. ráðherra sem hún svaraði í andsvari. Þingmaðurinn Ragnheiður Ríkharðsdóttir segir: Takk kærlega, hæstv. ráðherra, fyrir að koma með þessar upplýsingar.

Ég held að þarft sé að skoða það sem kallað er neysluviðmið og hvað er þar inni og hvort það geti hugsanlega verið að taka þurfi tillit til ólíkra þátta eins og húsnæðiskostnaðar, sem hæstv. ráðherra nefndi. Hann vegur misþungt eftir því hvar fólk er statt á landinu, ef við getum orðað það svo, og það getur skipt máli.

Það er hins vegar ánægjulegt að þeir sem að þessu hafa unnið taki mið af þeim ólíku aðstæðum sem íbúar þessa lands búa við hvað varðar húsnæði, húshitunarkostnað og annað í þeim dúr, sem mun skipta máli þegar kemur að vinnu hæstv. ráðherra við leiðbeinandi reglur til sveitarstjórna.

Mig langar að biðja hæstv. ráðherra um að taka aðeins á því sem varðar birtinguna sem mér finnst vera eins og refsivöndur á lofti þegar verið er að bera sveitarfélögin saman og það hvort þau fara eftir og hlýða leiðbeiningunum, sem eru þó eingöngu leiðbeinandi en ekki skilyrtar af hálfu löggjafans ef þetta nær fram að ganga á þennan hátt.