144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:14]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Já, svona getum við haft ólíka sýn, frú forseti. Þegar einstaklingur kemur inn til félagsþjónustu sveitarfélaga á hann að fá þá þjónustu og ráðgjöf sem hann hefur þörf fyrir. Það verður hins vegar aukning þegar atvinnu skortir og þá finnst mér eðlilegra að horfa á þann endann að við sköpum atvinnutækifæri fyrir fólk frekar en að hamast á því fólki sem er án atvinnu og reyna einhvern veginn að skilyrða það inn í atvinnu sem það augljóslega hefur ekki.

Við verðum að muna að atvinnuleysistryggingar eru í flestum tilfellum hærri en fjárhagsaðstoðin. Núna var verið að stytta tímabilið þannig að ef ég bý í Reykjanesbæ og er búin að vera atvinnulaus í tvö og hálft ár fer ég, í stað þess að fá fullar atvinnuleysisbætur sem eru tæplega 180 þúsund, niður í tæplega130 þúsund. Það var ákvörðun Alþingis að fara þannig með vinnumarkaðstengd réttindi fólks. Af hverju er fólk komið þarna inn? Að sjálfsögðu er það búið að vera vinnufært, það er búið að gera kröfur á það innan atvinnuleysistryggingakerfisins. Mér finnst ákveðin manneskjusýn þegar fólk er komið inn í þetta kerfi að við nálgumst það ekki með þeim hætti að það sé líklega að reyna að koma sér undan einhverju. Það er í aðstæðum sem það hafði engin tök á að hafa áhrif á. Eigum við ekki að horfa á þetta sem tímabundnar sveiflur og einbeita okkur frekar að því að koma störfum á framfæri sem fólk getur sótt í? Það gerir það samkvæmt tölfræðinni (Forseti hringir.) þegar þau eru til staðar.