144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:17]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það kom að því að við hv. þm. Sigríður Ingibjörg Ingadóttir urðum sammála í þessu máli. Það snýr að því að vitaskuld eigum við að auka verðmætasköpun og bæta atvinnuástandið til að sem flestir hafi vinnu. Þar erum við sammála og það er kannski að því sem þarf að stefna. Hins vegar tek ég fram að það getur verið að ekki allir sem þurfa á tímabundinni fjárhagsaðstoð að halda hjá sveitarfélaginu séu búnir að vera atvinnulausir í svo og svo langan tíma. Ýmsar aðrar ástæður geta komið skyndilega upp hjá fólki sem gerir það að verkum. Og þó að fólkið sé vinnufært að fullu eða að öllu leyti sækja sumir um fjárhagsaðstoð án þess að hafa verið atvinnulausir í langan tíma vegna þess að það eru tímabundnar aðstæður sem kalla á það. Þar geta veikindi spilað inn í, en þá er fólki leiðbeint samhliða hvernig það getur tekist á við þær aðstæður.

Ég held að ýmislegt skipti máli, að sjálfsögðu að auka verðmætasköpun og efla atvinnulífið en líka að fræða fólk og styðja það til sjálfsbjargar.