144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:34]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mér heyrist á þeim ræðum stjórnarliða sem ég hef heyrt að ekkert sé að óttast fyrir þá sem geta unnið. En það er þannig að í 2. gr. er talað um fulla og skerta getu til atvinnuþátttöku og maður spyr sig: Hvað er skert geta?

Það sem ég sakna í þessari tilraun til að byggja brú á milli þeirrar miklu fjárhagslegu ábyrgðar sem var flutt yfir á sveitarfélögin af hendi ríkisvaldsins þegar ákveðið var að skerða bótarétt um hálft ár á fordæmalausan hátt með tíu daga fyrirvara, ég óttast að þetta sé einhvers konar dúsa sem mun hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir viðkvæmustu hópana í samfélaginu eða hluta af þeim viðkvæmu hópum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann deili þessum áhyggjum mínum, af því að það er mín reynsla. Ég hef verið mannlegt tilraunadýr í því hvernig kerfið virkar ekki. Það er svo oft þannig að þegar komið er með svona „wholesale“-tillögur, fyrirgefðu, hæstv. forseti, að ég skuli sletta, eru svo margir sem falla gegnum möskvana. Hvaða hópar eru það sem er sennilegast að muni falla niður um þessa stóru möskva?