144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:36]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni spurninguna og ítreka það sem ég sagði áðan að mér finnst lykilverkefnið vera að forðast hugmyndina um sjúkdómsvæðingu atvinnuleysis. Það er ekki þannig að þeir sem eru atvinnulausir í dag geti sjálfum sér um kennt eða að það séu einhverjir skavankar þeirra sem valdi því. Þetta er nákvæmlega það sem gerist eftir hverja einustu efnahagskreppu í hverju einasta landi. Þess vegna fannst mér misráðið að stytta bótatímabil atvinnuleysis með vísan til þess að atvinnuástand almennt væri að batna, vegna þess að ef atvinnuástand er almennt að batna og þú ert áfram atvinnulaus er eitthvað mikið að í samfélaginu. Og það er ekki þannig að það eigi að hvetja þig eða að það breyti einhverju um aðstæður þínar að atvinnuleysi almennt sé að minnka.

Það er þá þannig að það er ekki opin leið út á vinnumarkaðinn fyrir viðkomandi. Ég held miðað við tölurnar sem ég var að tala um áðan, miðað við reynsluna frá Bretlandi, miðað við reynsluna héðan, sem blessunarlega er mikið, mikið betri í að fólk fái vinnu, þá eru samt sem áður 20% sem ekki fá vinnu. Við vitum líka að miðað við það sem ég nefndi áðan, hversu stór hluti er konur með börn o.s.frv., eru verulegar líkur á því að umtalsverður hluti eða umtalsverður hópur falli milli skips og bryggju í þessu kerfi. Það er líka hætta ef við einstaklingsvæðum vandann með þeim hætti að segja að skilyrðingar séu almenn lausn, sem þær eru ekki, þær geta verið hjálpartæki í einstaklingsmeðferð en þær eru ekki almenn lausn. Ef við setjum hluti fram eins og þær séu almenn lausn bjóðum við þeirri hættu heim að það verði farið að gera eins og í Bretlandi, að bjóða fólki hluti sem það hefur engar forsendur til að samþykkja. Hvað gerist þá? Ég sagði áðan að 38% þeirra sem eru á fjárhagsaðstoð eru sjúklingar sem þó hafa ekki örorku. Mun ekki fjölga í þeim hópi?