144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:40]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst mörg efnisrök fyrir því að afmarka betur heimildina, eins og ég rakti í ræðu minni áðan, að hún sé bundin við sérstakar aðstæður. Við skulum ekki horfa fram hjá því að í ákveðnum tilvikum við ákveðnar aðstæður hefur þessi skilyrðing virkað og hjálpað, við höfum dæmi um það. Þess vegna held ég að það skipti miklu máli að útskýra mjög vel í lögunum og afmarka það að þetta sé ekki almenn regla eða almenn heimild. Áhyggjuefni mitt er nákvæmlega það sem mér fannst hv. þingmaður ýja svolítið að. Við erum með sveitarfélög sem hafa ekki einu sinni hirt um að fara með fjárhagsaðstoð nálægt því sem fólk getur lifað af. Ef þau í ofanálag fá heimild sem þau geta túlkað sem opna heimild til þess að skilyrða þá aðstoð og þau sjá sjálf um skilyrðingarnar þá er búið að afhenda ansi mikið af frumburðarrétti fólks til framfærslu á Íslandi til handahófskennds valds sem er farið með á ósambærilegan hátt vítt og breitt um landið.

Við vitum hvernig skilyrðingar eða krafan um virkni virkar í höndum Vinnumálastofnunar. Þar hefur skapast hefð og venjur og þar er fólk til dæmis ekki tekið af bótum ef því er boðið starf sem það hefur ekki forsendur til að sinna. Hvernig vitum við að sú verði ekki raunin í einstökum sveitarfélögum sem vilja nýta þetta til að ryðja af? Þarna þurfum við að passa okkur afskaplega vel, vegna þess að það er leki í kerfinu í allar áttir. Ein leið er auðvitað sú að aukið álag leiði til þess að fólk einfaldlega veikist og það færist yfir í sjúklingahlutann. Enn önnur afleiðing getur verið að fólk fari frekar á örorku, á endurhæfingarlífeyri. Auðvitað er það á vissan hátt gott, því að þá hefst ákveðið endurhæfingarprógramm og endurhæfingarvirkni, en við þurfum að gæta að öllu þessu samhengi, við þurfum að passa að svona heimild geti ekki orðið (Forseti hringir.) skálkaskjól sveitarfélögum sem vanrækja (Forseti hringir.) félagslegar skyldur.