144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

lagning jarðstrengja.

[10:33]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur á undanförnum missirum staðið fyrir umræðu um lagningu jarðstrengja og lýst því yfir að henni finnist mikilvægt að sú umræða sé opin og öll sjónarmið uppi á borðum. Ég er sammála hæstv. ráðherra um mikilvægi þess. Mig langar að nýta þetta tækifæri til að inna hæstv. ráðherra eftir upplýsingum um rannsókn sem unnið hefur verið að á vegum Landsnets, dótturfélags Landsvirkjunar. Þar er verið að gera úttekt á lagningu háspennujarðstrengja í flutningskerfinu á tilteknum stöðum á landinu, skoða það meðal annars út frá flutningsgetu, áreiðanleika og kostnaði. Forstjóri Landsnets hefur upplýst um að sú rannsókn standi yfir og að von hafi verið á niðurstöðum úr henni núna í haust, þ.e. í september 2014, en það kemur m.a. fram í bréfi sem hann sendi Akureyrarbæ um mitt síðasta ár.

Við höfum nú til meðferðar á Alþingi tvö mál, annars vegar frumvarp til raforkulaga og hins vegar tillögu til þingsályktunar um stefnu stjórnvalda um lagningu raflína þar sem meðal annars stendur til að setja viðmið um lagningu raflína. Við vitum að talsvert hefur verið deilt um jarðstrengi, ekki síst út frá því hvað þeir megi í raun og veru kosta, hvort þeir séu tæknilega mögulegir og hvort þeir séu nauðsynlegir, þ.e. vegna umhverfisáhrifa. Þar er ég auðvitað í hópi þeirra sem telja mjög mikilvægt að við greiðum fyrir lagningu jarðstrengja, ekki síst út frá fagurfræðilegum sjónarmiðum með okkar ósnortnu víðerni og alla þá mikilvægu náttúru sem okkur ber skylda til að standa vörð um.

Í þingsályktunartillögunni er sett kostnaðarþak í 1,5 á það hversu miklu dýrari jarðstrengir megi vera en loftlínur til að þeir verði yfir höfuð lagðir og teljist raunhæfir valkostir, þ.e. 50% dýrari. Því tel ég mjög mikilvægt ef fyrir liggja nýjar upplýsingar um kostnað, eins og forstjóri Landsnets hefur greint frá í svörum til Akureyrarbæjar að sé verið að skoða, að þær upplýsingar liggi fyrir Alþingi áður en við afgreiðum tillögur þar sem við samþykkjum viðmið um lagningu jarðstrengja.

Ég spyr því hæstv. ráðherra hvort henni sé kunnugt (Forseti hringir.) um hvort þessar niðurstöður liggi fyrir og hvort hún sé mér ekki sammála um að mjög mikilvægt sé að fá kynningu á þeim áður en þessu málum verður lokið hér.