144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

lagning jarðstrengja.

[10:38]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni og ítreka að markmiðið með þessari vinnu er einmitt að reyna að sætta þessi sjónarmið. Við vitum að til þess að tryggja búsetu hér um land, til þess að tryggja öflugt atvinnulíf, til þess að tryggja það að við getum búið hér, verðum við að hafa öflugt og tryggt raforkukerfi sem víðast á landinu, en við viljum ekki gera það á kostnað annarra mikilvægra hagsmuna, svo sem ósnortinna víðerna og annars. En við þurfum líka að hafa í huga, og það kemur fram í þessari vinnu, að jarðstrengir eru kannski ekki alltaf umhverfisvænsti kosturinn. Það er líka sjónarmið sem hafa þarf í huga, t.d. ef farið er í gegnum ósnortið hraun verða óafturkræf áhrif við lagningu jarðstrengja. Öll þessi sjónarmið verða höfð að leiðarljósi og markmiðið er að gefa flutningsfyrirtækinu fyrirmæli frá okkur á löggjafarþinginu um það og vald til þess að bera saman og taka ákvörðun byggða á (Forseti hringir.) fleiri sjónarmiðum en bara kostnaði.