144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

stefna ríkisstjórnarinnar um afnám gjaldeyrishafta.

[10:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég verð að segja að mér finnst hv. þingmaður ganga býsna langt í þeirri tilraun sinni að reyna að finna einhverja gjá á milli stefnu stjórnarflokkanna í gjaldeyrishaftamálinu. Staðreyndin er nú sú að það er gott samstarf milli flokkanna og ágætisgangur í þeirri vinnu sem staðið hefur yfir núna í um það bil eitt og hálft ár þannig að ég hafna því að flokkarnir hafi gjörólíka stefnu.

Varðandi það meginmarkmið sem við erum að reyna að ná fram þá er það rétt sem vísað var til að það skiptir máli að staða heimilanna sé tryggð. En á sama tíma verðum við að horfast í augu við að við getum ekki tekið ákvarðanir sem verða óháðar allri óvissu, þ.e. við getum reiknað út um það bil hvað við teljum að muni gerast við afnám haftanna en við verðum aldrei 100% örugg. Það er það sem ég vísa til þegar ég segi að við þurfum á endanum að taka ákvörðun. Þetta er nefnilega ekki bara reikningsæfing að finna það út hvaða aðgerðir muni gagnast best.

Fyrst spurt er um markmiðið með þessu þá er það að viðhalda efnahagslegum stöðugleika. Í því samhengi skiptir máli sem nefnt hefur verið varðandi heimilin í landinu, að verja þau fyrir frekari sveiflum. Gleymum því ekki í þessari umræðu að heimilin tóku á sig gríðarlega kaupmáttarrýrnun á árunum 2009 og þar á eftir. Atvinnustarfsemin í landinu varð líka fyrir gríðarlegum skelli. Raungengi krónunnar lækkaði mjög hressilega og við höfum smám saman verið að reyna að vinna til baka þann kaupmátt sem tapaðist í þessum áföllum. Núna þegar við tökum þessi skref er ljóst að við þurfum að verja þann stöðugleika sem náðst hefur.

Varðandi tekjuöflunina eða það sem þarf að gerast þá liggur það fyrir og hefur legið lengi fyrir, í mörg ár að meginástæðan fyrir höftunum er nokkur hundruð milljarða þrýstingur á gengið. Við þurfum að létta þeim þrýstingi af með þeim aðferðum (Forseti hringir.) sem best eru til þess fallnar.