144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

rekstur sjúkrahótels.

[10:47]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Frá árinu 2009 hefur ríkissjóður greitt rúmlega 670 milljónir til einkareknu félaganna Fosshótel og Sinnum ehf. fyrir rekstur sjúkrahótela á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í svari heilbrigðisráðherra við skriflegri fyrirspurn minni frá því fyrir jól. Í október síðastliðinn kláraðist útboð af sama meiði þar sem hótelþáttur sjúkrahótelsins var boðinn út til næstu þriggja ára. Fyrir liggur að ríkissjóður mun reisa sjúkrahótelið á lóð Landspítalans. Að þessu sinni var samið við Sinnum ehf., sem var reyndar eini aðilinn sem bauð í.

Í fréttum Stöðvar 2 í síðustu viku var viðtal við Guðlaugu Rakel Guðjónsdóttur, framkvæmdastjóra flæðissviðs Landspítala, og það var margt athyglisvert sem kom fram í hennar máli. Hún lýsti því að uppbygging sjúkrahótels á lóð Landspítalans samrýmdist vel framtíðarsýn um aukið hagræði og betri rekstur Landspítalans, en það lægi í hlutarins eðli að til að hagkvæmnin og gæðin skiluðu sér frá sjúkrahúsinu yfir til sjúkrahótelsins væri best að spítalinn sjálfur mundi reka það með öllu því hagræði sem því fylgdi.

Í tilefni þeirra orða og vegna þess að ráðherrann hefur nú boðið út umrædda þjónustu til einkaaðila vil ég spyrja hæstv. ráðherrann hvernig málið allt saman atvikaðist í ráðuneyti hans á hans vakt. Hversu margar sviðsmyndir um mismunandi rekstrarform sjúkrahótelsins voru listaðar upp í ráðuneytinu áður en ákvörðunin var tekin? Hverjir voru kostirnir og gallarnir sem tókust á þegar tekin var ákvörðun um besta kostinn? Hver var til dæmis kostnaðurinn álitinn vera hjá Landspítalanum við að taka að sér þessa þjónustu? Sinnum býður gistinóttina á 19.529 kr. Var verðið hærra eða lægra hjá Landspítalanum? Voru fleiri atriði tekin til skoðunar í þessu sambandi eins og hagræði við samneytingu þjónustu og rekstrar?