144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

rekstur sjúkrahótels.

[10:49]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem hv. þingmaður vekur hér máls á varðandi sjúkrahótelið er mér hvort tveggja skylt og ánægjulegt að ræða. Ríkið hefur aldrei rekið sjúkrahótel, hefur ekki gert það, það voru Rauði krossinn og Fosshótel, og síðan var þetta boðið út núna. Fyrst var þetta boðið út frjálst 2010 þegar Sinnum fékk hótelið til rekstrar og Landspítalinn hefur síðan séð um þjónustu þar inni. Sömuleiðis fékk Sinnum reksturinn núna sem eini bjóðandinn við útboðið á síðasta ári. Fyrirmæli ráðuneytisins til sjúkratrygginga voru þau að taka upp viðræður við Landspítalann um rekstur inni á hótelinu. Þær viðræður standa yfir og er ekki lokið. Það eru ákveðnir hnökrar á þeim viðræðum að mér skilst, ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um það. Það stendur yfir fundur bara í þessum töluðu orðum eða hefst kl. 11 milli ráðuneytisins og Sjúkratrygginga Íslands vegna þessa máls meðal annars, þar sem ræða á möguleika á því að spítalinn haldi þeirri þjónustu áfram sem hann var með á sjúkrahótelinu. Ég þekki ekki þær sviðsmyndir sem hv. þingmaður er að spyrja um, get að sjálfsögðu kallað eftir því frá sjúkratryggingum.

Það sem ég vil nefna í lokin varðandi það viðtal sem hv. þingmaður vitnaði til við framkvæmdastjóra einn á Landspítalanum um hin nýju áform fyrir sjúkrahótelið þá hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það hvert verður rekstrarfyrirkomulag þeirrar byggingar sem á að rísa og ber vinnuheitið sjúkrahótel á lóð Landspítalans. Það liggja engar ákvarðanir fyrir í þeim efnum. Þó svo að menn tali um það innan spítalans eins og í þessu tilfelli að spítalinn eigi að byggja þetta og reka þá hafa engar (Forseti hringir.) ákvarðanir verið teknar.