144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

rekstur sjúkrahótels.

[10:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Að sjálfsögðu hef ég kannað hug stjórnenda til þess hvort þeir vilji reka sjúkrahótel. Það liggur alveg fyrir og m.a. af þeim ástæðum var þeim tilmælum beint til sjúkratrygginga að ræða við Landspítalann um þjónustu inn á sjúkrahótelið. Það hefur hins vegar legið fyrir alveg frá 2010, síðar í útboði, að samið var við Sinnum um rekstur sjúkrahótels. Það verklag var endurtekið aftur á síðasta ári og Sinnum var eina fyrirtækið sem bauð í og þá var gerður sams konar samningur.

Það eina sem út af stendur núna er það hver á að þjónusta sjúklingana eða gestina á því sama hóteli sem hér um ræðir með hjúkrunarþjónustu. Það ber hins vegar að hafa í huga að það hótel sem þarna er rekið er ekki heilbrigðisstofnun. Þetta er sjúkrahótel. Við getum ekki ætlast til þess í umræðunni eða vinnunni að sjúklingur sem gistir uppi í Ármúla sé á heilbrigðisstofnun. Hann er á sjúkrahóteli. (Forseti hringir.) Það verður að hafa það í huga þegar bæði Landspítalinn eða aðrir (Forseti hringir.) sækjast eftir því að fá að þjónusta það fólk sem gistir þar.