144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

auðlindir sjávar og auðlindasjóður.

[11:01]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að inna hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra eftir því hvernig hún lítur á auðlindir sjávar í samhengi við umræðu um aðrar náttúruauðlindir. Nýting náttúrugæða kallar auðvitað á yfirsýn og stefnumótun og það eru fleiri auðlindir í landi okkar en orkuauðlindir sem hafa verið mjög til umræðu upp á síðkastið. Fiskveiðiauðlindin er auðlind sem rakar upp stórgróða en skilar ekki til samfélagsins því sem vert væri ef vel væri að verki staðið. Hún gæti verið mun drýgri undirstaða samfélagslegrar uppbyggingar í landinu en reyndin er.

Í skýrslu auðlindastefnunefndar frá 2012 er lögð áhersla á hina samfélagslegu vídd sjálfbærrar þróunar, eins og það er orðað, og hvatt til þess að litið sé til þátta á borð við jöfnuð og lýðræðisleg yfirráð auðlinda, að gætt sé að vaxtarmöguleikum þeirra greina sem byggja beint á auðlindanýtingu og hugað að rétti komandi kynslóða.

Á Íslandi eigum við engan auðlindasjóð og afrakstur auðlinda og meðferð þeirra tekna sem af auðlindum spretta er ekki á neinum einum stað. Þess vegna langar mig að inna ráðherra eftir sýn hennar á þennan þátt mála, hvort hún teldi til bóta að hér yrði stofnaður auðlindasjóður sem næði yfir allar þær auðlindir sem landið býr yfir til lands og sjávar, sjóður sem hefði afmörkuð verkefni til samfélagslegrar uppbyggingar.