144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

auðlindir sjávar og auðlindasjóður.

[11:03]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur kærlega fyrir þessa fyrirspurn. Það er virkilega ánægjulegt að fá hana hingað því að á síðasta ríkisstjórnarfundi kynnti ég minnisblað um að við þyrftum að efla samstarf ráðuneyta á þessu sviði. Jafnframt tekur maður eftir því að það er mikil gerjun í samfélaginu almennt og við þurfum að koma til varnar hafinu okkar, þessari stórkostlegu auðlind. Ég vil geta þess að kannski var aðaluppleggið með stofnun umhverfisráðuneytisins að vernda þessa auðlind okkar, hafið sem alla tíð hefur verið helsta undirstaða efnahagslífs okkar.

En auðvitað eru ógnir, núna ekki síst af því að við höfum á undanförnum árum þurft að skera mjög niður í alþjóðlegu samstarfi. Öll ráðuneyti hafa þurft að gera það, þ.e. stjórnkerfið, og rödd Íslands hefur þess vegna orðið veikari á þeim alþjóðlega vettvangi. Það er mjög slæmt, við viljum vera í fararbroddi þar en ekki eftirbátur annarra svo það sé sagt.

Það eru ótal þættir sem þarf að huga að þegar komið er að hafinu en ráðuneytin sem það snýr að vilja efla mjög samvinnu innbyrðis til að verða öflugri og ekki síst tengja okkur líka saman út í samfélagið. Við sjáum sjávarklasann sækja fram og þar tengjast mörg fyrirtæki. Önnur fyrirtæki snúa meira að mengun hafsins sem eru líka að tengja sig saman og við ættum að geta gert þetta í samvinnu. (Forseti hringir.) Samvinna held ég að sé þarna meira lykilorð en að búa til sérstakan sjóð.