144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

auðlindir sjávar og auðlindasjóður.

[11:07]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Mér þykir miður ef hv. þingmanni finnst ég ekki hafa talað um auðlindina sem slíka en mér fannst ég segja hér að þetta væri okkar helsta auðlind og hefði verið undirstaða efnahagsmála okkar fyrr og síðar, auðlind sem við þurfum þess vegna að umgangast með varúð og virðingu en auðvitað auðlind líka sem við viljum efla. Við viljum vera rödd bæði hreinleikans og atvinnugreinarinnar í heild sem snertir sjóinn á alþjóðlegum vettvangi. Þar viljum við að rödd Íslands fái að heyrast og teljum að það sé mikils virði.

Varðandi norðurslóðirnar er vissulega mjög gott að við höfum ítök hvað þær varðar en þar er líka ógn á ferðinni. Bandaríkjamenn eru að taka þar við forustu og við vitum að þeir höfnuðu þátttöku Íslands á ákveðinni ráðstefnu. Ég á kannski ekki að kalla þetta ógn (Forseti hringir.) en það fer aðeins um mann og þess vegna ekki hvað síst þurfum við að styrkja okkur svo Bandaríkjamenn og aðrir skilji að við viljum sækja fram og passa hafið í kringum Ísland.