144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:08]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um náttúrupassa, á þskj. 699 í máli nr. 455. Þetta mál er, eins og þingheimi og ég leyfi mér að fullyrða nánast landsmönnum öllum er kunnugt, búið að vera lengi í undirbúningi og við höfum vandað vel til þeirrar vinnu sem sést hér afraksturinn af, það frumvarp sem við ræðum núna.

Þetta málefni hefur verið enn lengur í umræðunni og til gamans má geta að í Tímanum frá 7. maí 1978 má lesa frétt þar sem Félag gæslumanna spyr þeirrar spurningar hvort ástæða sé til að kvíða fjölgun erlendra ferðamanna á Íslandi vegna þess að það vanti íslenska ferðamálastefnu. Þetta mál hefur verið til umræðu svo árum og áratugum skiptir en núna á allra síðustu árum hefur það tekið þeim breytingum að erlendum ferðamönnum sem koma hingað til lands hefur fjölgað gríðarlega og hefur hvert metárið hefur rekið annað. Við getum farið aðeins í þær tölur.

Árið 2000 komu hingað 300 þúsund erlendir ferðamenn og hafði þá fjölgað um 20% frá metárinu þar áður. Árið 2008 var líka metár, þá komu hingað 500 þúsund erlendir ferðamenn. Á nýliðnu ári fórum við yfir milljón gesta múrinn. Ferðamönnum hafði sem sagt fjölgað um 500 þúsund manns á aðeins sex árum.

Þegar erlendir gestir eru spurðir hvað þeir séu komnir hingað til að skoða þá segja yfir 80% þeirra að íslensk náttúra sé helsta ástæða þess. Það sama á við um Íslendinga. Í nýlegri könnun MMR kemur fram að tæp 70% Íslendinga hafi ferðast út fyrir heimabyggð sína árið 2013 og að megintilgangur ferðarinnar hafi verið að upplifa náttúru Íslands. Á þessum hraðvaxtartíma hefur sú staðreynd orðið ljós að ekki hefur tekist að láta uppbyggingu innviða á hinum fjölsóttu ferðamannastöðum fylgja þeim takti sem verið hefur í fjölgun ferðamanna og þar erum við stödd núna. Við getum ekki lengur horft aðgerðalaus upp á það að náttúra okkar liggi undir skemmdum, bæði út frá því sjónarmiði að við hér, íbúar þessa lands, viljum tryggja að börn okkar, barnabörn og afkomendur þeirra geti notið þessarar náttúru eins og við gerum hér og eins verðum við að tryggja það að sú upplifum sem við seljum ferðamönnum, sú upplifun, varan sem við erum að markaðssetja, íslensk náttúra, standi undir þeirri lýsingu sem gefin er og þeim væntingum sem ferðamenn gera til hennar.

Ferðaþjónustan er gríðarlega mikilvæg atvinnugrein og hefur mikið efnahagslegt vægi í íslensku samfélagi. Hún er nú orðin ein af þremur stórum stoðum efnahagslífsins ásamt sjávarútvegi og orkufrekri stóriðju. Hún er í hröðum vexti og er að mörgu leyti mjög ákjósanleg atvinnugrein fyrir okkur Íslendinga. Það eru sóknarfæri fyrir landsbyggðina, hún stuðlar að jákvæðri byggðaþróun og hefur sannarlega mikil áhrif á þjóðarhag.

Í þessu máli eru mjög skiptar skoðanir og hef ég ekki dregið dul á það. Ég hef ferðast um landið. Ég held að ég hafi hitt á ýmsum fundum vítt og breitt um landið hátt í 1.000 manns samtals og rætt þessi mál ítarlega, hlustað á sjónarmið og farið yfir málin. Ég er bjartsýn eftir þær umræður um að við getum náð niðurstöðu í þessu mikilvæga máli vegna þess að við verðum að líta til þess hvað við erum sammála um og hvert við erum komin. Við erum komin miklu lengra en fyrir aðeins örfáum árum.

Við erum öll sammála um að við getum ekki horft upp á íslenska náttúru liggja undir illbætanlegum skemmdum vegna átroðnings ferðamanna, við erum sammála um það. Við erum flest sammála um að gjaldtaka í einni eða annarri mynd sé ekki bara réttlætanleg heldur líka nauðsynleg. Þegar við segjum þetta verðum við líka að hafa í huga að vegna skuldbindinga okkar vegna EES-samningsins er nákvæmlega sama hvaða leið er farin, ekki er heimilt að mismuna ferðamönnum eftir þjóðerni og það eru allir jafnir fyrir þeim lögum sem við setjum. Ég held að við séum líka mörg hver sammála um að það sé bæði eðlilegt, sjálfsagt og sanngjarnt að erlendir ferðamenn greiði stærri hlutann fyrir náttúruvernd og uppbyggingu á ferðamannastöðum sem nauðsynleg er. Það er einkum og sér í lagi vegna þeirrar öru fjölgunar að við þurfum að ráðast í kostnaðarsamar framkvæmdir. Þess vegna er sanngjarnt að leita leiða til að auka tekjur af erlendum ferðamönnum sem hingað koma og fjölga þátttakendum í íslenskri náttúruvernd. Eins og ég sagði áðan er ég sannfærð um að það sé meira í þessu máli sem sameinar okkur en það sem skilur okkur að. Við erum í rauninni að rökræða og tala fyrir ólíkum sjónarmiðum varðandi útfærslu þessara leiða og það þykir mér vera viðfangsefni sem ég er sannfærð um að við getum náð niðurstöðu um ef við leggjum okkur öll fram.

Þá er það spurningin: Hvaða útfærsla er sanngjörnust? Hvaða útfærsla er líklegust til að um hana verði sátt? Hvaða niðurstaða er líklegust til að við náum þeim markmiðum sem við stefnum að?

Ég mæli hér fyrir frumvarpi til náttúrupassa sem er ein af þeim leiðum sem nefndar hafa verið. Hún er hvorki sú eina sem í boði er né heldur er hún gallalaus frekar en aðrar þær leiðir sem til umfjöllunar hafa verið og það er það sem við þurfum að hafa í huga; allar þær leiðir sem ræddar hafa verið hafa bæði kosti og galla. Það var niðurstaða mín og okkar í ríkisstjórninni að leggja þessa leið til, að öllum sjónarmiðum kostum og göllum vegnum, en þegar þessari umræðu lýkur og málið fer til meðferðar þingsins er það að sjálfsögðu í valdi þingsins að taka málið og lagfæra það, gera á því endurbætur og breytingar eftir því sem menn kjósa. Þetta er sú leið sem ég legg hér í umræðuna.

Komið hefur upp sú mýta í umræðunni að þetta sé náttúrupassinn hennar Ragnheiðar, að þetta sé sú leið sem ég hafi „fattað upp á“, eins og krakkarnir mundu orða það, og ætli mér að koma henni hér í gegn hvað sem tautar og raular. En það er bara alls ekki þannig. Förum til baka til ársins 2013 þegar við vorum flestöll sem hér erum í kosningabaráttu. Þá man ég að þetta mál kom oft og ítrekað til umræðu. Hugtakið náttúrupassi var mikið rætt og menn voru velflestir jákvæðir fyrir því að skoða þá útfærslu.

Ég minni líka á að á þeim tíma, og það er það sem við lögðum til grundvallar í vinnu okkar, komu út fjölmargar skýrslur. Boston Consulting Group kom með ítarlega skýrslu um stöðu og framtíð ferðaþjónustunnar á Íslandi þar sem lögð var til einhvers konar útfærslu af náttúrupassa. Samráðsvettvangurinn um aukna hagsæld og McKinsey-fyrirtækið komu með ítarlega greiningu á íslensku efnahagslífi. Þau lögðu til leið sem þau kölluðu ferðakort, sem er náskylt þeirri útfærslu sem hér er á borð borin. Ég minni á að hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar fól mér beinlínis að útfæra græna náttúrupassa til uppbyggingar og viðhalds á fjölsóttum ferðamannastöðum. Stjórnmálaflokkarnir hafa ályktað um þetta, báðir stjórnarflokkarnir með einum eða öðrum hætti, klasafyrirtækið Gekon, það er samstarfsklasi í ferðaþjónustu, kom með svipaðar hugmyndir og svo mætti lengi telja. Þetta er því leið sem ítrekað hefur verið lögð til. Til að ljúka umfjöllun um aðdraganda málsins vil ég nefna að að lokinni skoðun á öllum þessum skýrslum, álitum, greiningum og þeim fjölmörgu úttektum sem gerðar höfðu verið á ferðaþjónustunni á undangengnum árum lagði ég til og fékk samþykkt í ríkisstjórninni að við skyldum útfæra náttúrupassa sem leið til fjármögnunar, uppbyggingar og viðhalds á fjölsóttum ferðamannastöðum. Þá settum við á laggirnar samstarfshóp þar sem í áttu sæti 25 mismunandi aðilar; fulltrúar hagsmunasamtakafélaga, samtaka og annarra innan greinarinnar og fleiri sem ræddu og fóru yfir þessi áform. Sú vinna miðaði að því að útfæra náttúrupassa vegna þess að við vorum búin að fá nóg af skýrslugerð um þessi mál. Ég minni á umræðuna á þeim tíma, það er kannski sama umræðan og er núna. Efnið var til og nú var kominn tími til að útfæra hugmyndirnar og fara að framkvæma. Það er þess vegna sem við tókum það efni sem til var og hófum þessa vegferð.

Það eru fjölmargar aðrar leiðir. Gistináttagjald er eitt sem þingmönnum er að góðu kunnugt. Það var sett á í tíð síðustu ríkisstjórnar, en ég minni á að þegar þáverandi iðnaðarráðherra Katrín Júlíusdóttir kom fram með það frumvarp þá var það svokölluð blönduð leið með bæði komugjaldi og gistináttagjaldi. Alþingi hafnaði komugjöldunum ekki síst á þeim forsendum að það væri landsbyggðarskattur. Okkur er heimilt að leggja komugjöld á farseðla en okkur er ekki heimilt að mismuna eftir þjóðernum eða fjarlægðum og þess vegna yrði sama upphæð lögð á innanlandsflugið. Þess vegna hafnaði Alþingi þeirri leið. Það er sjálfsagt að skoða hvort Alþingi hafi breytt um skoðun, en eftir samtöl mín við þingmenn leyfi ég mér að efast um það.

Eins og ég segi eru kostir og gallar við allar leiðir. Það sem ég vil gera nú og nota tíma minn til hér er að færa rök fyrir því af hverju ég tel að náttúrupassinn uppfylli mörg þeirra markmiða sem við setjum okkur og af hverju sú leið sem er lögð til hér. Náttúrupassinn í þeirri útfærslu sem við leggjum til hér á að stuðla að sjálfbærri ferðamennsku og um leið að verndun náttúrunnar. Við göngum út frá þeirri hugmyndafræði að þeir borgi sem njóti. Þeir sem nýta sér þá innviði sem búið er að byggja upp taka um leið þátt í kostnaði við það og framtíðaruppbyggingu.

Náttúrupassinn mun gilda á öllum svæðum í eigu og umsjá ríkis og sveitarfélaga. Með því taka ríki og sveitarfélög í rauninni utan um landsvæði sitt og segja: Á svæðum sem eru í eigu og umsjón ríkis og sveitarfélaga verður ekki innheimtur aðgangseyrir með öðrum hætti. En það er ekki þannig, og ég vil ítreka það hér, að mönnum beri að hafa náttúrupassa á öllum svæðum í eigu og umsjá ríkis og sveitarfélaga, eins og fram kemur í frumvarpinu, heldur á fyrir fram skilgreindum stöðum sem Ferðamálastofa mun tilgreina á uppfærðum og aðgengilegum lista, samkvæmt 4. gr. frumvarpsins. Þetta eru tíu til tólf staðir sem við vitum svona í megindráttum hverjir eru. Þetta eru þeir staðir þar sem ásókn ferðamanna er þegar mikil. Við höfum þurft að byggja upp innviði þar og við höfum þurft að viðhalda þeim. Þetta eru staðir eins og Gullfoss, Skógafoss, Dimmuborgir, Skaftafell og, já, Þingvellir. Þingvellir hafa mikið verið í umræðunni og ég hef sagt það áður og segi það enn að auðvitað er það framandi hugmynd að eiga að fara að greiða aðgangseyri að Þingvöllum. Það er það. Þetta er helgistaðurinn okkar, þetta er okkar þjóðareign og okkur þykir það framandi hugmynd. En við megum ekki gleyma því að Þingvellir eru um leið einn af okkar fjölsóttustu ferðamannastöðum og jafnframt sá ferðamannastaður sem á það á hættu að verða fyrir mestum skemmdum vegna átroðnings ferðamanna. Þess vegna hefur frá árinu 1999 verið kveðið skýrt á um það í íslenskum lögum að umsjónarmönnum náttúruverndarsvæða sé heimilt að ákvarða sérstakt gjald. Ég ætla að fá að lesa ákvæðið úr lögum um náttúruvernd. Þar segir, með leyfi forseta:

„Rekstraraðili náttúruverndarsvæðis getur enn fremur ákveðið gjald fyrir aðgang að svæðinu ef spjöll hafa orðið af völdum ferðamanna eða hætta er á slíkum spjöllum. Tekjum samkvæmt síðari málslið 1. mgr. skal varið til eftirlits, lagfæringar eða uppbyggingar svæðisins eða aðkomu að því.“

Þetta ákvæði hefur verið í náttúruverndarlögum frá árinu 1999 og ég vil minna á að í þeim náttúruverndarlögum sem hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, lagði fram hér og fékk samþykkt í apríl 2013 en hafa ekki enn tekið gildi eins og þingmenn vita, er sams konar ákvæði. Af hverju er þetta ákvæði í þessum lögum? Af hverjum höfum við ekki gert athugasemdir við það? Það er vegna þess að löggjafinn sér að komið gæti til þess að innheimta þyrfti aðgangseyri til að tryggja fjármuni í þessa uppbyggingu. Það væri gert með náttúruvernd að leiðarljósi.

Ég tók hér áðan á móti mjög fallegu Íslandskorti frá fimm ferðamannasamtökum. Ákvæðið um almannarétt í náttúruverndarlögum er grafið á kortið og var það tilgangur samtakanna að minna mig á mikilvægi almannaréttarins fyrir þessa umræðu. Ég sagði þeim að þau þyrftu ekkert að hafa áhyggjur af því, ég væri mér vel meðvituð um mikilvægi almannaréttarins. En ég er líka mjög vel meðvituð um mikilvægi þess að við sköðum ekki íslenska náttúru. Það er þess vegna sem þetta ákvæði er ekki bara í núgildandi lögum um náttúruvernd heldur er líka svona ákvæði í lögum um Vatnajökulsþjóðgarð. Þar segir í 21. gr., með leyfi forseta:

„Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld innan Vatnajökulsþjóðgarðs fyrir veitta þjónustu og aðgang að svæðinu til að mæta kostnaði …“

Í lögum um þjóðgarðinn á Þingvöllum, helgistaðinn okkar, er eftirfarandi gjaldtökuheimild í 7. gr., með leyfi forseta:

„Í reglugerð má ákveða að taka gestagjöld innan þjóðgarðsins fyrir veitta þjónustu og dvöl þar til að mæta kostnaði við þjónustuna og eftirlit með dvalargestum.“

Fyrst við tölum um almannarétt og þá fullyrðingu að ég sé með þessu að leggja til að för fólks verði takmörkuð, þá segir enn fremur, í 7. gr., með leyfi forseta:

„Þingvallanefnd getur einnig sett sérstakar tímabundnar reglur um umferð innan þjóðgarðsins, þ.m.t. bann við akstri utan vega og dvöl á ákveðnum svæðum, og sama gildir um veiðar dýra og fugla innan hans.“

Þarna er löggjafinn búinn að veita Þingvallanefnd heimild til að takmarka almannarétt fólks innan þessa helgistaðar með málefnalegum rökum. Og það er það sem ég er að segja hér.

Við höfum þessar heimildir enn fremur í lögum um skipan ferðamála, nr. 73/2005. Í 28. gr. laganna segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra er heimilt að ákveða, að fenginni umsögn Ferðamálastofu, að greitt skuli sanngjarnt gjald fyrir þjónustu sem veitt er á ferðamannastöðum enda sé fé það sem þannig safnast, að frádregnum innheimtukostnaði, eingöngu notað til verndar, fegrunar og snyrtingar viðkomandi staðar og til að bæta aðstöðu til móttöku ferðamanna.“

Þarna erum við komin að kjarna málsins. Markmiðið með náttúrupassanum er einmitt það að afla fjár til að stuðla að verndun, viðhaldi og uppbyggingu á þessum fjölsóttu ferðamannastöðum. Markmiðin eru að vernda náttúruna, dreifa álagi með því að byggja upp á fleiri stöðum og að tryggja öryggi ferðamannanna. Fyrir því er sannarlega lagastoð í núgildandi lögum.

Einkaaðilar geta einnig sótt um aðild að náttúrupassa. Eina skilyrðið sem sett er er að þeir innheimti ekki aðgangseyri með öðrum hætti. Það er gert til að byggja inn hvata í kerfinu til að fá einkaaðila til samstarfs. Ég hef heyrt þá gagnrýni meðal annars í þessum sal að ég takmarki ekki með þessu rétt einkaaðila til að innheimta aðgangseyri á sínum svæðum og þess vegna sé þetta allt saman ómögulegt. Ég bendi á að í öðrum gjaldtökuleiðum, meðal annars þeirri sem við höfum nú í lögum um gistináttagjald, er heldur ekki tekið á þessu álitamáli og það er nákvæmlega það sem það er, þetta er lögfræðilegt álitaefni þar sem vegast á tvenn af grundvallarréttindum borgaranna; almannarétturinn, sem ég hef farið hér yfir og er varinn af náttúruverndarlögum, þó með þeim takmörkunum sem ég nefndi, og eignarrétturinn, sem varinn er af stjórnarskrá. Það verður ekki útkljáð í frumvarpi til laga um náttúrupassa. Það verður að útkljá annars staðar, fyrir dómstólum vegna þess að um þarna eru skiptar lögfræðilegar skoðanir sem ég ber virðingu fyrir.

Þau dómsmál sem nú eru í ferli snúa ekki beinlínis að þessari spurningu. Þau fjalla meira um húsfélagsmál, hvort meiri hluti landeigenda megi taka ákvörðun um að aðgangseyrir skuli innheimtur í óþökk minni hluta. Við Geysi var það raunin og þá var ríkið minnihlutaeigandi. Fyrir norðan, í landi Reykjahlíðar, gerði minni hluti athugasemd við ákvörðun meiri hlutans og þar voru einkaaðilar alls staðar við borðið. Þessi dómsmál eru núna til meðferðar en þau snúa ekki beint að þessu stóra prinsippi hvort þetta megi eða ekki. Það væri sannarlega gott ef það yrði útkljáð en ekki er búið að gera það. Á meðan erum við að leita leiða til að fá einkaaðila með okkur í lið, veita þeim hvata til að koma með okkur í þetta verkefni vegna þess að þeir sjá sér hag í því. Af hverju sjá þeir sér hag í því? Þá kem ég að fyrirkomulaginu.

Umsýslan verður hjá Ferðamálastofu og fer úthlutun fram hjá Framkvæmdasjóði ferðamannastaða sem þegar er til. Ekki verður búið til neitt nýtt batterí utan um þetta. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur verið starfræktur síðan gistináttagjaldið var lögfest og um hann hefur ríkt ágætissátt. Menn hafa gagnrýnt tvennt, annars vegar að ekki séu nógir fjármunir í sjóðnum og hins vegar að mönnum sé gert skylt að leggja fram mótframlag. Kemur það helst til vegna fyrri þáttarins, að verið er að reyna að gera meira úr fjármununum. Aðilar að náttúrupassa geta sótt um í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða og fengið úthlutað ef þeir uppfylla þau skilyrði sem nú eru við lýði án þess að þurfa að leggja fram mótframlag. Aðilar að náttúrupassa þurfa sem sagt ekki að leggja fram mótframlag hvort sem það er ríki eða sveitarfélög eða einkaaðilar sem kjósa að koma til liðs við okkur varðandi náttúrupassa. Við tökum reyndar til hliðar í kringum 10% af þeim fjármunum sem við höfum til úthlutunar til þeirra aðila sem vilja af einhverjum ástæðum ekki vera aðilar. Þeir geta þá sótt um ef þeir greiða mótframlag gegn því að þeir innheimti ekki sjálfir aðgangseyri. Ef menn innheimta slíkt sjálfir eiga þeir ekki rétt á úthlutun. Þetta er viðleitni okkar til að fá einkaaðilana til samstarfs með okkur.

Eftirlit verður ekki umfangsmikið, það verður með svipuðum hætti. Það má líkja því við stöðumælaeftirlit. Við getum tekið sénsinn á því að leggja á Laugaveginum án þess að borga í stöðumæli en við eigum þá á hættu að stöðumælavörðurinn gangi fram hjá og sekti okkur þá um hærri upphæð. Það er hugsunin á bak við þetta. Ekki er verið að stofna hér eftirlitssveitir. Ekki er verið að skriðtækla fólk upp um allar jarðir og sekta fólk heldur er hugsunin sú að þetta sé sameiginlegt verkefni. Þess vegna er gjaldið haft hóflegt, 1.500 kr. og passinn gildir í þrjú ár. Þetta eru 500 kr. á hvern Íslending 18 ára og eldri. Við viljum höfða til þess að við þurfum að taka höndum saman til að vernda náttúruna og það er þess vegna sem þetta er sett upp svona. Við höfum engan áhuga á því að vera með eftirlitssveitir á hverjum einasta stað sem krefja fólk um náttúrupassa, það er ekki ætlunin. Það verða ekki gjaldahlið, það verða ekki farartálmar. För fólks verður með nákvæmlega sama hætti núna, ótakmörkuð. Menn geta farið á rjúpu, menn geta farið í berjamó, menn geta keyrt í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum á leið sinni frá Reykjavík upp í Biskupstungur ef þeir svo kjósa án þess að vera með náttúrupassa. En ef menn eru komnir á þann stað þar sem gerð er krafa um passann þurfa menn að borga fyrir að standa á pallinum sem búið er að smíða og fyrir að standa við handriðið sem varnar því að fólk detti í fossinn, fyrir að ganga eftir göngustígunum sem búið er að leggja, það er það sem verið er að borga fyrir, ekki fyrir að fá að horfa á fossinn. Það er mikilvægt að hafa það í huga.

Við borgum ekki fyrir sögu okkar og menningu þegar við borgum 1.500 kr. inn í Þjóðminjasafnið, reyndar í hvert skipti. Þar er saga okkar og menning vissulega til sýnis. Við erum ekki krafin um vegabréf, það er ekki afsláttur fyrir Íslendinga. Við borgum ekki fyrir söguna og menninguna. Við borgum fyrir húsið, við borgum fyrir safnið. Við borgum fyrir reksturinn, við borgum fyrir að einhver hafi tekið að sér að leggja kostnað í þessa innviði. Það er nákvæmlega sama hugsunin og er að baki náttúrupassanum.

Áætlaðar tekjur af náttúrupassanum nema um 4,5–5,2 milljörðum kr. á fyrstu þremur árunum miðað við spár um fjölda ferðamanna. Eitt af markmiðum var, eins og ég lagði upp með, að tekjurnar kæmu sem mest frá erlenda ferðamanninum. Með þessu móti áætlum við, miðað við spár um fjölda ferðamanna, að 85–90% af þessum tekjum komi frá erlenda ferðamanninum. Það er vegna þess að við Íslendingar kaupum passann á þriggja ára fresti, 18 ára og eldri, og borgum 500 kr. á ári, en meiri hluti ferðamanna, sem ég minni á að voru milljón á síðasta ári, kemur hér einu sinni þó að það séu undantekningar á því. Ef við miðum við 70% heimtur þá mundu 700 þúsund ferðamenn kaupa náttúrupassa á hverju einasta ári, gróflega áætlað. Þannig fáum við það út að erlendi ferðamaðurinn, sem ég minni á að er líka ástæðan fyrir því að við þurfum að spýta í lófana í þessum efnum, tekur þátt í þessu með okkur. Kannanir benda til þess að erlendi ferðamaðurinn er tilbúinn að borga miklu meira. En við höfðum það í huga, ekki síst með Íslendinga að leiðarljósi og líka vegna þess að við sjáum að þetta dugir vel fyrir áætlaðri uppbyggingarþörf, að hafa gjaldið hóflegt og gera það með þessum hætti.

Við tökum að auki 7,5% til hliðar í ýmis málefni sem tengjast öryggi ferðamanna. Helmingurinn af því fer til björgunarsveita sem hafa, eins og allir vita, lent í umtalsverðum kostnaði vegna fjölgunar ferðamanna.

Ég er viss um að komugjöld verða mikið rædd hér. Menn vilja einfalt, lítið krúttlegt gjald sem enginn finnur fyrir. Ég er búin að heyra það alls staðar í umræðunni. Við erum búin að skoða það og við erum búin að meta kosti og galla á því. Ef við legðum á komugjöld væri helmingurinn af tekjunum kominn frá Íslendingum vegna þess hvernig innanlandsflugið er samsett og hversu mikill fjöldi Íslendinga ferðast með innanlandsflugi. Það væri aukaskattlagning á Íslendinga, en með náttúrupassanum náum við 85–90% af tekjunum frá erlenda ferðamanninum. Það eru veigamikil rök í því máli.

Aðeins að lokum. Það eru fjölmargar aðrar leiðir og ég hlakka til að taka þessa umræðu í dag. Ég vil hvetja þingheim og endurtaka það sem ég sagði áðan varðandi þá upplifun sem ég hef orðið fyrir af samtali mínu við tæplega þúsund manns á fundum í kringum landið. Þeir fundir hafa verið afar málefnalegir og skoðanaskiptin málefnaleg. Við höfum farið yfir kosti og galla og rökrætt þetta en ég finn mikinn vilja hjá fólki og það er krafa þess að við, þingheimur, verðum að taka höndum saman og ljúka þessu máli á þessu vorþingi. Ég hvet þingheim til að kynna sér málið og (Forseti hringir.) koma með málefnalegar breytingar. (Forseti hringir.) Ég er sannfærð um að við munum ná niðurstöðu í málinu (Forseti hringir.) ef við pössum að hafa það að leiðarljósi sem sameinar okkur í þessari umræðu.