144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:40]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er grundvallarmisskilningur í fyrirspurn hv þingmanns. Hann spyr annars vegar: Hvers vegna vill Sjálfstæðisflokkurinn flækja skattkerfið? Og svo segir hann hins vegar að tillögur stjórnar Samtaka ferðaþjónustunnar um að breyta gistináttagjaldinu feli ekki í sér neinar flækjur. Það er rangt.

Ég minni á núna hvert gistináttagjaldið er núna. Nú er það 100 kr. plús virðisaukaskattur á gistináttaeiningu. Tillögur Samtaka ferðaþjónustunnar eru að hækka gjaldið verulega til þess að ná þessum tekjum og leggja það á hvern einstakling. Það eru fjölmargir gallar á því fyrirkomulagi og sannarlega ekki þannig að það verði laust við eftirlit, fyrir utan það að tekjurnar sem af því koma eru hvergi nærri nægjanlegar, eins og hv. þingmaður veit.

Núna gefur gistináttagjaldið 146 millj. kr. til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Það mun ekki (Forseti hringir.) takast að ná þeim fjármunum sem við þurfum (Forseti hringir.) með þeim hætti án þess að stórflækja kerfið, hækka gjaldið (Forseti hringir.) og gera það með þeim hætti að það getur haft skaðleg áhrif á eftirspurn.