144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:44]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra sérstaklega út í 4. gr. frumvarpsins sem hún tæpti aðeins á í máli sínu og lýtur að því að öll svæði sem eru í opinberri eigu eiga sjálfkrafa aðild að náttúrupassa en þau svæði sem eru í einkaeign geti sótt um aðild að náttúrupassa. Hér kemur fram í 4. gr. að verði maður sem eigandi svæðis eða ferðamannastaðar aðili að náttúrupassa sé manni óheimilt að taka annað aðgangsgjald af þeim sem þá staði sækja en náttúrupassa. Það er hins vegar ekkert í frumvarpinu sem bannar þeim sem eiga svæði að fara aðra leið, þ.e. að gerast ekki aðilar að náttúrupassa en halda áfram sinni gjaldheimtu. Og við erum auðvitað búin að sjá þá þróun verða hér um land allt að menn hafa verið að innheimta eigin gjöld. Hæstv. ráðherra sagði að slík gjaldtaka væri ekki bönnuð. En hefur hæstv. ráðherra trú á því að einkaaðilar taki þátt í þessum náttúrupassa, er einhver hvati fyrir þá til þess að gera það? Er ekki hreinlega allt eins hægt að halda áfram að innheimta eigið gjald því hér er ekkert sem bannar það?