144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:45]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég fór yfir það í ræðu minni að ekki er verið að takmarka í frumvarpinu rétt einkaaðila til þess að innheimta með öðrum hætti, en það er sá hvati sem við erum að reyna að byggja inn í frumvarpið. Já, ég er bjartsýn á það að okkur muni takast að fá einkaaðila með okkur, ég skal ekki fullyrða um það hvort það verði allir, en ég er bjartsýn á það að við náum að fá einhverja af þeim með okkur til samstarfs. Það er markmiðið.

Varðandi það hvort þetta sé heimilt eða ekki þá eru vissulega uppi skiptar skoðanir. Við létum kanna það í mínu ráðuneyti og fjármálaráðuneytinu og fengum lögfræðiálit þar sem færð voru fyrir því rök að eigendum væri það heimilt. Umhverfisstofnun hefur komið með sitt álit sem er andstætt því. Þess vegna ítreka ég að þetta er sjálfstætt úrlausnarefni sem við (Forseti hringir.) vonandi náum að leiða (Forseti hringir.) til lykta einhvern tímann í framtíðinni.