144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:48]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Gleymum því ekki að með því að ríki og sveitarfélög eru að taka höndum saman náum við yfir yfirgnæfandi meiri hluta alls landsvæðis og þeirra staða sem skilgreindir eru sem fjölsóttir ferðamannastaðir eða sem ferðamannastaðir. Af því að hv. þingmaður spyr um skilgreininguna þá hafði ég ekki tíma í framsögu minni til að vísa til annars frumvarps sem er á dagskrá í dag sem hæstv. umhverfisráðherra leggur fram, sem er frumvarp til laga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru- og menningarsögulegum minjum. Það var samið samhliða þessu frumvarpi um náttúrupassa og þau kallast ljómandi vel á. Þar er til dæmis í 2. gr. nánari skilgreining á ferðamannastöðum þannig að þingið hefur þá tæki til þess að koma annars vegar með tólf ára stefnumótandi uppbyggingaráætlun og þriggja ára framkvæmdaáætlun og með því ákveðið hvaða staði við eigum að skilgreina sem ferðamannastaði og hvaða staði við eigum bara að láta vera og vera (Forseti hringir.) ekkert að skipuleggja neina (Forseti hringir.) uppbyggingu á. Ég tel mikilvægt að þingmenn kynni sér það frumvarp (Forseti hringir.) vegna þess að það tekur á mörgum þeim spurningum sem ég (Forseti hringir.) veit að menn hafa.