144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:49]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get ekki sagt að ég hafi róast mikið þegar hæstv. ráðherra líkti eftirlitssveitum í þessum efnum við stöðumælaverði. Það er greinilegt að hæstv. ráðherra hefur sloppið betur frá þeim viðskiptum en ég að minnsta kosti.

Mig langar til að spyrja ráðherra: Það er augljóst í mínum huga að komugjöld með flugi eru einfaldasta útfærslan á þessu verkefni og í leiðinni í áttina að því markmiði sem við erum öll sammála um. Hæstv. ráðherra nefnir alltaf að þá verði að setja sérstök gjöld á innanlandsflug. Nú er það þannig að á innanlandsflug eru lögð að minnsta kosti átta eða níu ólík gjöld af hálfu hins opinbera. Hefur hæstv. ráðherra ekki athugað hvort það væri mögulegt, ef menn legðu komugjöld á innanlandsflug, að lækka eitthvað af þeim gjöldum á móti þannig að landsmenn væru með mjög svipaða stöðu gagnvart þessu en á sama tíma væru menn að innheimta mjög hátt gjald á landsvísu af komu erlendra ferðamanna til landsins.