144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:52]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnast rök hæstv. ráðherra fyrir því að ekki sé hægt að leggja þessi gjöld á innanlandsflugið mall. Þar eru ólík gjöld til staðar, átta eða níu ólík gjöld, sem ég held að hljóti að vera hægt af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis að finna útfærslu á þannig að menn gætu lagt komugjöld á flug svo að meginhluti þeirra tekna sem þar kæmu inn kæmu frá erlendum ferðamönnum. Ég skil ekki alveg þá meinloku sem hæstv. ráðherra virðist hafa gagnvart því að fara aðra leið en þá sem hún ítrekað segir að sé ekki hennar hugmynd í umræðum um þetta mál. Af hverju ekki að skoða betur útfærslur sem kalla ekki á eftirlit, sem innheimtast 100% og skila jafnvel meiri tekjum, vegna þess að kostnaðurinn af kerfinu er ekki sambærilegur því sem hæstv. ráðherra er að leggja til? Því að fara flóknari leið en nauðsynlegt er?