144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:54]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af því að þetta heitir nú andsvar er ég ekki viss um að ég hafi spurningu til hæstv. ráðherra. Ég vil hins vegar gera alvarlegan ágreining í andsvari við hæstv. ráðherra um að þeim beri endilega að borga sem njóta, svo ég noti hennar eigin orð. Íslendingar eru skattgreiðendur upp til hópa og borga. Þeir eiga sitt land og vilja hafa frjálsa för um landið. Þeir eiga að borga sem græða og það eru ferðaþjónustufyrirtækin sem græða og gera út á nýtingu ferðamannastaða, alveg eins og útgerðin gerir út á nýtingu fiskstofna og fiskveiðiauðlindarinnar. Þetta er nákvæmlega það sama. Ferðaþjónustan er tilbúin að borga, hún hefur sjálf lagt það til að tekjurnar verði teknar inn í gegnum gistináttaskattinn. Hún er tilbúin að borga. Hún skilur prinsippið en hæstv. ráðherra skilur ekki prinsippið, virðist vera.