144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:55]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að þetta er ekki í fyrsta sinn sem við hv. þingmaður erum ósammála. Ég er mjög hlynnt því prinsippi að þeir borgi sem njóta. Ég vísa hér í grein sem Svandís Svavarsdóttir, þáverandi umhverfisráðherra, skrifaði í Fréttablaðið 30. nóvember 2010. Hún segir, með leyfi forseta:

„Kostnaður við náttúruvernd er að mestu leyti fjármagnaður af skattfé, enda er náttúra landsins ein okkar dýrmætasta eign sem þjóðar. Það er hins vegar eðlilegt að kostnaður við aðstöðu og umbætur á fjölsóttum ferðamannastöðum sé á einhvern hátt borinn af ferðamönnum. Það er í samræmi við nytjagreiðsluregluna svokölluðu, sem er einn af hornsteinum umhverfisréttar, og það er í samræmi við almenn sanngirnissjónarmið.

Ferðamenn sýna hóflegri gjaldtöku oftast skilning ef þeir sjá að fénu er sannanlega varið í góða aðstöðu og metnaðarfulla vernd náttúrunnar …“

Það er meðal annars af þessu sjónarmiði sem ég legg þetta fram.