144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:57]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er ekki hv. þm. Svandís Svavarsdóttir, ég heiti Ólína Þorvarðardóttir og er hér sjálfstæður þingmaður. Ef menn hefðu haft þá framsýni fyrir þó nokkru að stofna auðlindasjóð og samræma nýtingu allra auðlinda í landinu, afla þeim sjóði tekna í gegnum eðlilegt auðlindagjald, bæði af ferðaþjónustu, sjávarútvegi, orkunýtingu og öðru, værum við kannski ekki stödd í þessari vandræðalegu umræðu um að mjólka einstaklinga en ekki tekjulindirnar sem atvinnuvegirnir bera uppi og hafa ráð á að miðla af.

Ég tel og finnst einsýnt að þeir sem nýta í raun náttúruauðlindirnar séu þeir hinir sömu og standa straum af því að verja þær og tryggja sjálfbærni þeirra. Það er ekki síst samfélagsleg ábyrgð sem slíkir nýtingaraðilar bera.