144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[11:59]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Hér erum við að ræða frumvarp til laga um náttúrupassa sem hæstv. iðnaðarráðherra, ferðamálaráðherra, flytur hér og færir okkur inn til þings. Má segja að sitt sýnist hverjum um þetta málefni. Hér hefur komið fram í stuttum andsvörum og í ýmsum ályktunum frá aðilum í ferðaþjónustu að þetta frumvarp hæstv. ráðherra og sú leið sem hún kýs að fara hafi fengið algjöra falleinkunn strax og hugmyndin kom fram fyrir einhverjum missirum.

Mér finnst með ólíkindum og ég minnist þess ekki, virðulegi forseti, í minni þingsetu sem er búin að vera frá 1999 að ráðherra hafi komið með jafn umdeilt og illa unnið frumvarp, að ég tali nú ekki um leiðina sem hún velur. Ráðherrann sjálfur, og það finnst mér merkilegt, hefur sagt í fjölmiðlum að þetta sé hennar leið, þetta sé það sem hún leggur til en Alþingi og þingnefnd geti tekið þetta og snúið þessu þess vegna á haus og gjörbreytt málinu. Það er algjörlega nýtt. Ég segi fyrir mitt leyti sem aðili í atvinnuveganefnd sem fæ þetta frumvarp: Já, ég skal sannarlega leggja mitt af mörkum við að gera þessa vondu leið sem hér er boðuð farsælli og breyta henni og vil trúa því að allir fulltrúar í nefndinni og þá alveg sérstaklega fulltrúar stjórnarflokkanna muni taka þátt í þeirri vinnu vegna þess að sú leið sem hér er boðuð er mjög furðuleg. Ég held að ráðherrann hafi hitt á versta kostinn og ég skil í raun ekki hvers vegna. Hvers vegna tók ráðherra ekki meira tillit til aðila í ferðaþjónustu sem hafa ályktað um þetta og viljað fara aðra leið?

Svo má segja að skattalækkunarstefna Sjálfstæðisflokksins með Framsóknarflokkinn í eftirdragi sé mjög undarleg og hefur verið að birtast okkur síðustu missiri. Hærri matarskattur, hærri bókaskattur, hærri notendagjöld í heilbrigðisþjónustu. Veiðigjöld hafa verið að lækka og nú kemur náttúrupassinn. Ef þetta er sú forgangsröðun sem sjálfstæðismenn og framsóknarmenn ætla að hafa og eru hér að fylgja þá fær hún að mínu mati algjöra falleinkunn í byrjun.

Eins og kemur fram í frumvarpinu og hér hefur verið rætt þá var það á árinu 2011, í tíð síðustu ríkisstjórnar, sem sérstakur skattur tengdur ferðaþjónustu var tekinn upp, þ.e. gistináttaskatturinn, sem var hér töluvert ræddur en að lokum fallist á hann með þeirri lágu tölu sem þar var nefnd. Ég spyr mig hvers vegna í ósköpunum ráðherra hafi ekki tekið þau lög og þá hugmynd, sniðið af henni vankantana sem voru og útfærði betur með tilliti til reynslunnar, hækkaði gjaldið og náði í þessa upphæð hvað það varðar. Fljótt á litið held ég að það hefði verið langbesta og auðveldasta leiðin. Þetta er komið inn í kerfið hjá þeim sem selja gistinætur og auðvelt að taka þennan litla skatt, þessar 100 kr. sem tekur varla að innheimta, kostnaðurinn er svo mikill við það en það er annar handleggur, hækka hann þá og ná í sambærilega upphæð og þarna á að gera.

Virðulegi forseti. Ég sagði áðan að mér fyndist undarlegt að þetta frumvarp væri frá hendi ráðherrans galopið til gjörbreytingar á Alþingi og í nefnd. Það munum við gera. Þetta frumvarp hefur fengið hrikalega vond viðbrögð. Menn hafa tekið sem dæmi af Þingvöllum, sem hafa verið og eru í almannaeigu, að menn þurfi að borga fyrir að fara þangað. Þeir sem ekki borga geta átt von á einhverjum innheimtustjóra, einhverjum náttúrupassaverði, og ef þeir eru ekki búnir að borga verður þeim þess vegna vísað út úr þjóðgarðinum og rukkaðir um 15 þús. kr. sekt. Annaðhvort finnst þeim ekki viðeigandi að við Íslendingar þurfum að borga fyrir að fara á Þingvelli eða við skulum segja að útlendingur sem kemur til landsins hafi ekki náttúrupassa og fái svona sekt. Mér skilst að fyrirvarar í þingflokki Framsóknarflokksins hafi verið mjög miklir á þetta frumvarp en samt er það lagt fram. Eftir því sem mér skilst líka eru miklir fyrirvarar í þingflokki Sjálfstæðisflokksins við þetta og mikið rætt. Þetta segi ég sem rökstuðning og spyr hæstv. ráðherra: Af hverju í ósköpunum valdi hún leið sem fær falleinkunn?

Við erum að ræða hérna hvernig við hækkum þetta gjald og komum því til frambúðar til þess að afla fjár til að vernda og byggja upp og lagfæra viðkvæma ferðamannastaði vegna þess mikla fjölda sem sækir landið heim og mun bara aukast á næstu árum. Það er meðal annars í framhaldi af miklu átaki síðustu ríkisstjórnar í kynningu á landinu, Inspired by Iceland, sem tókst ákaflega vel, að við sjáum þessa miklu fjölgun enda er það svo — ég legg sérstaklega áherslu á það og menn ættu að gefa því meiri gaum — að ferðaþjónustan aflaði á seinni hluta ársins 2013 meiri gjaldeyristekna en sjávarútvegur og ál. Það var í fyrsta skipti í sögu landsins sem það gerðist. Ég man ekki hvort það var á þriðja ársfjórðungi eða þeim fjórða, það skiptir ekki máli. Ráðherra sagði hér áðan að hún hefði hitt um þúsund manns til að ræða þessi mál og hefur hún þá ábyggilega fengið það beint í æð hvað ferðaþjónustuaðilar hafa verið að segja upp á síðkastið. Hún sagðist vera bjartsýn á að ná niðurstöðu.

Meginverkefni þingnefndarinnar verður að hverfa frá þessari vondu leið og finna betri leið og útfæra. Í frumvarpinu rætt um fjóra kosti sem voru skoðaðir, kosti og galla þeirra. Mér finnst vera dálítið merkilegt að þar eru raktir kostir og gallar komu- eða brottfarargjalds, gistináttaskatts, „hver innheimtir fyrir sig“ og nýsjálensku leiðarinnar. Ekki eru ræddir kostir og gallar þeirrar leiðar sem ráðherrann fer, náttúrupassans. Ég get farið aðeins yfir þá þætti sem hér eru nefndir þrátt fyrir gagnrýni mína á leið hæstv. ráðherra og vinnuna sem hefur líka tekið allt of langan tíma, allt frá vordögum 2013 þegar hún settist í þann stól sem hún situr í núna. Núna fyrst í lok janúar 2015 erum við að ræða frumvarpið. Vonandi klárum við það fyrir vorið.

Komu- eða brottfarargjöld. Það eru ákveðnir vankantar á þeirri leið. Þau verðum við að rukka alla sem koma til landsins um, þar með talið innanlandsflug sem er nú þegar mjög dýrt. Það er vissulega ókostur en það er ekki eini ókosturinn. Ég held að ég muni það rétt að forsvarsmenn EasyJets hafi sagt að Keflavíkurflugvöllur sé annar eða þriðji dýrasti flugvöllur sem flugfélagið lendir á. Við höfum fengið fréttir af því upp á síðkastið að tvö flugfélög séu hætt að fljúga til okkar. Það kann að vera út af háum lendingargjöldum. Auðvitað vitum við að lágfargjaldaflugfélögin sækjast í að komast á ódýrustu vellina og þess vegna hef ég aldrei skilið af hverju við beinum ekki meira lendingu og þjónustu við lágfargjaldaflugfélögin á Akureyri og Egilsstaði til dæmis, en það er annar handleggur. Í stuttu máli nú við fyrstu ræðu mína nefni ég þetta sem ókost og tek undir að það er ókostur við komu- og brottfarargjöld.

Þá er gistináttaskatturinn næsta leið sem nefnd er og fjallað er um kosti og galla við hann. Hér kemur fram að gistináttagjaldið skilar miðað við 100 kr. 265 milljónum á ári, þar af fara 146 milljónir í sjóð fyrir ferðaþjónustuna. Auðvitað er það of lág tala. Þess vegna má alveg reikna það út miðað við kostnaðarumsögn sem kemur fram frá fjármálaráðuneytinu að ef við hækkum þetta gjald til dæmis upp í 500 kr. fáum við um það bil 1.300 milljónir á ári sem er svipuð tala og náttúrupassinn á að gefa árið 2016, þ.e. 1.238 millj. kr.; ef við förum í 400 kr. verða það 1.060 millj. kr. Ég staldra við það og les hérna um agnúa á gistináttagjaldinu. Af hverju förum við þá ekki í það að leiðrétta þá og lagfæra miðað við reynsluna og förum þessa leið sem þar er talað um?

Í þriðja lagi er nefnt að landeigendur innheimti hver fyrir sig. Það er vonlausasta leiðin að mínu mati. Í svona litlu landi þar sem er stutt á milli náttúruparadísa gengur ekki að menn séu með kreditkortið uppi á hverjum stað, þar standi landeigendur eða aðrir og rukki sérstakt gjald. Það er ekki góð ásýnd fyrir land og þjóð. Það er vonlaust, að mínu mati.

Ég spyr þess vegna út í það sem segir í 4. mgr. 4. gr., með leyfi forseta:

„Ferðamálastofa skal á hverjum tíma halda úti uppfærðum og aðgengilegum lista yfir þá ferðamannastaði á Íslandi sem eiga aðild að náttúrupassa í samræmi við 1. og 2. mgr.“

Hvað með þá sem vilja ekki fara á listann? Geta þeir verið bara sér með sína kortavél og rukkað inn? Tökum dæmi um Geysi, á það þá að vera þannig? Er þá ekki kominn enn einn ókosturinn við þessa leið? Ég ætla ekki að tjá mig og eyða tíma mínum í að tala um þessa nýsjálensku leið.

Ég hef staldrað mest við, eins og heyra má, gistináttagjaldið, frekari útfærslu á því og lagfæringar og koma því þannig fyrir að við öflum þeirra tekna sem við teljum sanngjarnar og þurfum að fá til að fara í það átak sem við þurfum á ferðamannastöðum vegna þess að við höfum vanrækt það svo lengi. Á síðu sem heitir túristi.is er fyrirsögn um að gistináttagjöld séu í þriðju hverri borg. Svo er fjallað um ýmsar borgir sem íslensk félög fljúga til. Hér segir, með leyfi forseta:

„Í töflunni hér fyrir neðan má sjá hver gistináttaskatturinn er í þeim 20 borgum sem flogið er beint til frá Keflavík og hótelgestir eru skattlagðir sérstaklega. Virðisaukaskatturinn er einnig tilgreindur en til samanburðar má geta að skattur á gistingu er 7% hér á landi …“ — er núna hærri.

Tökum nokkur dæmi. Amsterdam: 5,5% ofan á heildarverð. Barcelona: 115–380 kr. Berlín: 5% ofan á heildarverð. Hamborg: 80–600 kr. Það má skjóta því hér inn að fram kemur að skatturinn sé misjafn eftir tegund gististaða, eftir gæðum gististaða. Kannski er ekkert óeðlilegt við það. Við getum tekið Mílanó: 300–750 kr. New York: 430–930 kr. París: 30–250 kr. Róm: 450–1.070 kr. Svo eru taldar hér upp nokkrar borgir eins og Seattle, Toronto og Vínarborg sem leggja bara prósentu ofan á gjaldið sem maður borgar fyrir að gista á viðkomandi hóteli.

Virðulegi forseti. Á lokamínútu minni í 1. umr. um þetta frumvarp vil ég segja að miðað við þessa yfirferð finnst mér náttúrupassi ráðherra og ríkisstjórnarinnar versta leiðin. Gistináttagjaldið er held ég leiðin sem við eigum að fara og setjast niður við að útfæra á betri hátt ef þarf að lagfæra einhverja vankanta á því. Það á að hækka gjaldið til að fá inn þá upphæð sem við teljum okkur þurfa í það átak sem þarf að fara í sem allra fyrst og gefa miklu meira í en þessar 900 millj. kr. sem veittar hafa verið í þetta frá gildistöku laganna í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er góðra gjalda vert og miklir peningar en þeir duga bara ekki til vegna þess, eins og ég segi, að við höfum vanrækt þetta svo lengi.

Ég hlakka til að fást við þetta frumvarp í atvinnuveganefnd og endurtek það sem ég sagði áðan: (Forseti hringir.) Mér finnst það mjög undarlegt að fram sé komið frumvarp sem ráðherrann gefur hálfpartinn leyfi á að verði gjörbreytt (Forseti hringir.) í meðförum Alþingis. (Forseti hringir.) Það munum við gera.