144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:19]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er nokkuð ljóst að tóninn er gefinn af hálfu Samfylkingarinnar um gistináttagjald, þá er það komið fram. Þetta er væntanlega sú leið sem hv. þingmaður mun berjast fyrir í atvinnuveganefnd og það kemur í ljós hvernig sú meðferð fer öll.

Mig langar að spyrja hv. þingmann. Miðað við þá andstöðu sem umræðan um hækkun gistináttagjalds hefur fengið, af því að sitt sýnist hverjum í þeim leiðum sem virðast færar til þess að afla fjár til að vernda íslenska náttúru gegn ágangi, hverja telur þingmaðurinn vankantana á gistináttagjaldinu verða, ef hann telur að þeir verði einhverjir, t.d. miðað við undanskot frá skatti? Hver telur hv. þingmaður að áhrifin verði eða hvernig það muni skila hér á höfuðborgarsvæðinu til þeirra sem leigja út húsin sín og íbúðir? Yrði gistináttagjald og yrði hægt að nálgast það á þann hátt sem hv. þingmaður talar um?

Nú þori ég ekki að fullyrða hversu mörgum krónum í ríkiskassann gistináttagjaldið skilar í dag. Stærsti hlutinn kemur væntanlega frá höfuðborgarsvæðinu. Sums staðar frá kemur lítið sem ekkert. Er þetta hugsanlega einn af þeim vanköntum sem hv. þingmaður telur að verði á þessari leið, að ýmis jaðartilfelli geti orðið erfið og að það auki undanskot frá skatti?