144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:21]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir að umtalsefni í andsvari við mig undanskot frá skatti hvað varðar gistináttagjald. Það getur vel verið og við höfum talað um það að svört atvinnustarfsemi sé mikil. Ferðaþjónustuaðilar sem hafa rætt við okkur í atvinnuveganefnd um ýmis mál sem þar hafa verið til umfjöllunar hafa stundum kastað upp á tjald síðu, sem ég man ekki hvað heitir, þar sem kemur fram að hægt er að kaupa gistingu á fimm eða sex hundruð heimilum í Reykjavík eða í einhverjum húsum sem enginn veit um. Sem betur fer hefur ríkisskattstjóri verið í sérstöku átaki hvað þetta verðar og orðið verulega ágengt.

Með öðrum orðum, ef þetta væri eini gallinn við gistináttagjaldið væri ég ekki hræddur við það. Þetta er auðvitað það átak sem við eigum að fara í til að koma í veg fyrir svona starfsemi, ekki aðeins vegna þess að hún skilar ekki gjöldum til ríkissjóðs eins og hún á að gera og skekkir samkeppnisaðstöðu þeirra sem eru á markaði og gera þetta á heiðarlegan og eðlilegan hátt, heldur líka út frá öryggisatriðum. Hvað ætla menn að gera ef það verður stórslys, við skulum segja ef það verði bruni í einhverju húsi sem er ekki samþykkt en er selt út og fólk ferst þar í bruna? Það yrði ekki gott til afspurnar og ekki góð lýsing á ferðalandinu Íslandi.

Ef þetta er eina vandamálið er mjög auðvelt að fara hratt og vel í það hjá ríkisskattstjóra. Hvað varðar það sem hv. þingmaður ræðir, hvort höfuðborgarsvæðið skili mestu og það sé minna úti á landi, veit ég ekkert um það. Þetta er kannski efni í fyrirspurn, upp á að fá útfærsluna, hvaðan þetta kemur. En það er alveg sama með þetta og annað, ef menn stimpla inn í kassann vínsölu í staðinn fyrir sölu á mat, það er skattyfirvalda að fara í gegnum það. Þetta er mikið iðkað og við ræddum það töluvert í sambandi við breytingu á virðisaukaskatti að hægt er að fara miklu hraðar í þetta og gera meira í því. Ég fagna því sem Samtök ferðaþjónustunnar (Forseti hringir.) hafa vakið athygli á og ríkisskattstjóri er að bregðast við.