144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra byrjaði á því í framsöguræðu sinni að ræða hvað við værum sammála um í þessum þingsal. Ég get tekið undir það að við erum sammála um að fjármuni þarf til að byggja upp innviði á viðkvæmum svæðum, ekki síst þeim svæðum sem eru fjölsótt af ferðamönnum. Við erum auðvitað líka sammála um mikilvægi ferðaþjónustunnar sem hefur gegnt ómetanlegu hlutverki fyrir þjóðarbúið á undanförnum árum. Með sívaxandi fjölgun ferðamanna hafa gjaldeyristekjur aukist jafnt og þétt en uppbygging innviða hefur ekki náð að fylgja eftir að sama skapi þessari miklu fjölgun ferðamanna. Og það vitum við öll sem ferðumst mikið um landið að það liggur fyrir.

Eins og hæstv. ráðherra sagði raunar líka þá höfum við ekki verið sammála um leiðir og það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til þeirrar umræðu sem við áttum hér þegar lagt var til á síðasta kjörtímabili að hækka virðisaukaskatt á ferðaþjónustu. Sá virðisaukaskattur hefur raunar verið hækkaður núna með samþykkt breytinga á virðisaukaskattskerfinu fyrir jól, en á síðasta kjörtímabili var lögð til hækkun virðisaukaskatts á ferðaþjónustu og hún mætti mikilli andstöðu í núverandi stjórnarflokkum. Þá voru þung orð látin falla og rætt um árás á ferðaþjónustuna. Það liggur því alveg fyrir að gengið hefur erfiðlega að ná hér sátt um leiðir.

Ég vil líka minna á að gistináttagjaldið var sett á á þeim tíma, árið 2011, og við skulum ekki gleyma því að sú hugmynd sem þá var lögð fram snerist um að það væri tvenns konar gjald, þ.e. 100 kr. á nótt á hótelum og 50 kr. á ódýrari gististöðum. Því var svo breytt í meðförum Alþingis í eitt 100 kr. gjald. Hér veltu menn vöngum yfir því að þetta gjald væri of íþyngjandi. Nú er lagt til að það verði fellt niður og ég set stórt spurningarmerki við það. Ég tel að þetta kerfi megi útfæra miklum mun betur. Þetta er það kerfi sem heldur uppi uppbyggingu ferðamannastaða nánast um alla Evrópu. Hv. þingmaður sem talaði á undan nefndi nokkur dæmi og ef við förum yfir það þá er mjög algengt að þar sé lagt á gjald allt frá 1 evru og aðeins undir því eða 75 sentum og upp í 4 evrur, allt eftir verði gistingar. Hér er gjaldið 100 kr., sem að sjálfsögðu skilar ekki nægjanlegum fjármunum í kassann, en ég sé ekkert því til fyrirstöðu og hef ekki heyrt fullnægjandi rök fyrir því að útfæra þá leið frekar þannig að gistináttagjaldið verði mismunandi eftir gististöðum og renni til uppbyggingar ferðamannastaða. Það er ekkert í því fyrirkomulagi sem kemur í veg fyrir að við breytum uppbyggingunni á Framkvæmdasjóði ferðamannastaða, því að hæstv. ráðherra gerði það líka að umtalsefni í ræðu sinni að mikilvægt væri að krefjast ekki mótframlags. Vissulega höfum við heyrt þau rök áður og þá skulum við skoða það. En af hverju að hverfa frá þessu kerfi fremur en að þróa það áfram, kerfi sem er í gangi um alla Evrópu? Ég geri líka athugasemd við það að í greinargerð frumvarpsins er rætt um að gjaldtaka sé iðkuð víða um heim þegar farið er inn í þjóðgarða og á vernduð svæði. En þegar nánar er skoðað og rýnt í gögnin sem vísað er í, til að mynda skýrslu sem fyrirtækið Alta vann fyrir Ferðamálastofu og heitir Fjármögnun uppbyggingar og viðhalds ferðamannastaða: Yfirlit yfir gjaldtökuleiðir þar sem farið er yfir ólíkar gjaldtökuleiðir, kemur fram að það er fyrst og fremst vestan hafs, þ.e. í Bandaríkjunum og Kanada, þar sem sú leið hefur verið farin og svo á svæðum lengra í burtu. En ef við horfum á það svæði þar sem við erum stödd, Evrópu, þá er þessi leið, gistináttagjöldin, langvinsælasta og mest tekna leiðin, svo að ég segi það. Og þar er ekki almennt rukkað inn á þjóðgarða eða friðlýst svæði.

Síðan hefur verið rætt talsvert um komugjöld og vissulega er það rétt að ég heyri áhyggjur manna um land allt af því að komugjöldin leggist þyngst á innanlandsflugið, sem er auðvitað ekki bara ferðaleið ferðamanna, hvers lenskir sem þeir kunna að vera, heldur líka Íslendinga sem þurfa að ferðast á milli staða. Þar held ég að við megum ekki festa okkur í þeirri nauðhyggju að þar af leiðandi sé sú leið út úr myndinni. Þurfum við ekki bara að skilgreina innanlandsflugið upp á nýtt? Við hljótum öll að hafa ákveðnar áhyggjur af því hvert stefnir í þeim málum þar sem farþegum fækkar ár frá ári og fargjöld hafa hækkað. Það er umtalsefni hvert sem maður fer út um land, áhyggjur manna af hækkandi verði í innanlandsflugi. Þurfum við þá ekki að velta því fyrir okkur nákvæmlega hver er framtíð innanlandsflugsins? Ég tel ekki að sú leið komi þar af leiðandi í veg fyrir komugjöld heldur tel ég að við þurfum þá að skoða stöðu innanlandsflugsins sérstaklega.

Hér hefur líka að mínu viti verið skautað allhratt og allsnubbótt yfir svokallaða nýsjálenska leið. Hún fær í raun og veru bara eina málsgrein í frumvarpinu, um að grunnreglan sé sú að allir þeir sem hafa fjárhagslegan ávinning af því að vera með starfsemi á ferðamannasvæðum, þ.e. ferðaþjónustuaðilar, þurfi að greiða fyrir það ákveðin afnotagjöld. Þessi leið er í raun afgreidd með þeim orðum að hún yrði talsvert flóknari í framkvæmd hér á landi, svo ég vitni í greinargerð frumvarpsins, sökum þess að álagning í ferðaþjónustu sé talsvert flókin hér á landi og í sumum tilvikum megi segja það sama um eignarhald á ferðamannastöðum.

Já, vissulega er ferðaþjónustan flókin og samsett grein. En ég tel að þessi leið sé afgreidd of léttilega í greinargerðinni og ég tel og vænti þess að hv. atvinnuveganefnd, sem á eftir að fara yfir málið, þurfi að kafa miklu dýpra ofan í allar þessar leiðir. Það sem ég hef hins vegar sagt áður og stend við það hér er að ég hef talið gistináttagjaldið einföldustu leiðina í framkvæmd. Þá hefur verið nefnt að ekki greiði allir fyrir gistingu, skemmtiferðaskipin hafa verið tekin sem dæmi. Þá er hægt að horfa til þess að Grænlendingar, svo dæmi sé tekið, rukka sérstakt gjald af þeim farþegum sem þar stoppa við í skemmtiferðaskipum, því að þeir fara bara í land og fara svo aftur, og það sama á við um fleiri þjóðir.

Ég hef því í fyrsta lagi efasemdir um að við séum hér að finna upp hjól, nýtt hjól, sem við sjáum í raun og veru ekki alveg fyrir hvernig nákvæmlega verður staðið að framkvæmdum á. Hér hafa hv. þingmenn sem hafa talað líka velt upp spurningum um eftirlitið. Hæstv. ráðherra hefur sagt að það verði ekki umfangsmikið, ekki sé gert ráð fyrir miklu umfangi eftirlits. Þá getum við líka spurt: Mun leiðin skila þeim fjármunum sem ætlast er til? Ég er hins vegar ekki hlynnt eftirliti í anda stöðumælavörslu í 101 Reykjavík. Það mundi breyta upplifun ferðamanna sem hingað koma af landinu. Það eru auðvitað stór rök sem aðilar í ferðaþjónustu hafa fært fram að við erum að markaðssetja ákveðna náttúru, hin ósnortnu víðerni, hina ósnortnu náttúru og sú mynd spillist auðvitað um leið og við erum komin með mannmargt eftirlit til þess að rukka inn eða kanna hvort fólk hafi greitt náttúrupassann. En þó að hér sé sagt í upphafi máls að eftirlitið verði ekki mannmargt, að það verði reiknað með því að fólk bara borgi og það verði bara í raun gert tékk öðru hvoru, þá sé ég ekki annað en að við hljótum að velta fyrir okkur: Hvað erum við að opna fyrir ef við samþykkjum það frumvarp sem hér liggur fyrir?

Eins og hv. þingmönnum er kunnugt og ég vil nota síðari hluta ræðu minnar til þess að ræða það sérstaklega, þá hef ég ekki endilega haft mestar áhyggjur af markaðssetningu Íslands, þó að hún sé gríðarlega mikilvæg, heldur stóru grundvallaratriðunum á bak við þetta mál. Það er tvennt þar sem ég vil nefna sérstaklega. Það er annars vegar almannarétturinn. Hæstv. ráðherra sagðist telja að það væri afgreitt með því að til staðar væri ákveðin gjaldtökuheimild í náttúruverndarlögum frá 1999 og 2013. En eins og ég benti á áðan í mínu stutta andsvari þá tel ég ekki að sú heimild geti talist sambærileg við þá gjaldtöku sem hér er lögð til. Náttúruverndarsvæði eru mjög skýrt afmörkuð í lögum og reglugerðum. Það er mjög mikið ferli sem liggur á bak við það að svæði fái slíka stöðu. Þar er mjög skýrt afmarkað líka nákvæmlega hvernig á að verja fjármununum.

Þetta er mun víðfeðmara ef við horfum á skilgreininguna og það er ekki bara vísað til frumvarpsins sem hér liggur frammi heldur líka þess frumvarps sem er næst á dagskrá, þ.e. frumvarps um landsáætlun og uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, sem er frumvarp hæstv. umhverfisráðherra. Þetta eru mjög opnar skilgreiningar. Ferðamannastaðir eru staðir sem hafa aðdráttarafl fyrir ferðamenn vegna náttúru og sögu. Sveitarfélög geta skilgreint slíka staði innan síns aðalskipulags, byggt á eigin mati, einkaaðilar geta líka í raun og veru skilgreint staði innan sinna svæða byggt á sínu mati. Ég tel að þetta hugtak sé miklu víðfeðmara og óljósara en náttúruverndarsvæði. Það er í raun og veru skilgreiningarvandi í frumvarpinu. Við vitum það öll sem ferðumst um landið að það eru óteljandi staðir sem við getum kallað ferðamannastaði. Þessar heimildir tel ég því ekki sambærilegar.

Í náttúruverndarlögum er líka kveðið á um almannaréttinn og hann hefur verið hluti af íslenskri löggjöf allt frá Jónsbók. Þessar reglur eru ekki séríslenskar. Þær hafa endurspeglast í rétti vestrænna ríkja allt frá því að almannaréttur var skilgreindur í Rómaveldi hinu forna þar sem var talað um hin sameiginlegu gæði, sem voru andrúmsloftið, aðgengi að sjó, svo dæmi sé tekið, og þar með talið frjáls för um land. Þetta hef ég talið að ætti í raun og veru, miðað við þá hefð sem við höfum í íslenskum lögum, heima í stjórnarskrá og hefði helst viljað sjá það og um það hafa margar tillögur verið gerðar á undanförnum árum, af því að hefðin er mjög rík fyrir almannarétti í íslenskri löggjöf. Og það eru þau sjónarmið sem hæstv. ráðherra viðraði hér áðan og hún hefur fengið brýningu um frá náttúruverndarsamtökum, það er gríðarlega mikilvægur þáttur í lagahefð okkar að eiga frjálsa för um landið. Og við hljótum að spyrja okkur, þó að gjaldið sé lágt, 500 kr. á ári: Er með þessu ekki verið að setja ákveðnar takmarkanir á ferðafrelsi í ljósi þess að við þurfum, þó að eftirlitið eigi ekki vera mikið, að hafa greitt 500 kr. fyrir að fara um landið, þá ferðamannastaði sem er hægt að skilgreina með svona gríðarlega opnum hætti? Og ef við erum ekki með passann í okkar höndum eða skráðan við okkar kennitölu þá liggur við sekt, 15 þús. kr. sekt samkvæmt frumvarpinu. Hvort þetta hljóti ekki að stangast á við almannarétt tel ég að við þurfum að fá miklu betur skilgreint. Mér finnst líka merkilegt að í greinargerð með frumvarpinu sé enginn kafli um almannaréttinn sérstaklega, sem ég hefði óskað eftir lagalegri úttekt á.

Hitt stóra málið, grundvallarmálið, vil ég nota síðustu mínútur mínar til að fjalla um, og það er: Fyrir hvað erum við að borga? Hæstv. ráðherra segir: Við erum að borga fyrir þjónustuna. Ég held að við gætum alveg náð sátt í þessum sal um að borga fyrir tiltekna þjónustu, en það er ekki það sama að setja pening í stöðumæli eða borga fyrir að fá að fara á salerni, eins og gert er víða í Evrópu, þar er rukkað fyrir það að fá að fara á salernið. Stundum verður maður bara mjög glaður af því að þá fær maður pissa í hreint klósett, sem eru ákveðin gæði og þjónusta sem maður greiðir fyrir. En við erum ekki að skilgreina slíka þjónustu hér. Það er ekki verið að tala um að við borgum í stöðumæla hjá Gullfossi eða að rútufarartæki borgi í stöðumæla. Það er verið að tala um að allur almenningur borgi þetta gjald, vilji hann á annað borð fara um landið. Að sjálfsögðu ætlum við ekki að keyra í gegnum Þingvelli án þess að hafa möguleika á að stoppa þar. Eða ætlum við að keyra í gegnum Þingvelli og segja: Nei, við getum ekki stoppað, við erum ekki búin að borga. Það sama á við um landið þar sem í raun og veru verður hægt skilgreina óteljandi ferðaþjónustu eða ferðamannastaði samkvæmt þeim skilgreiningum sem eru lagðar hér til grundvallar. Sú skilgreining er það opin og markmið frumvarpsins virðist í raun og veru vera það að allir greiði þetta gjald, náttúrupassagjald fyrir að fá að fara um landið. Og þá hljótum við að vera komin að siðferðilegu spurningu, af því að náttúran lýtur öðrum lögmálum en menningin. Menningin er það sem menn hafa búið til, af því að hæstv. ráðherra nefndi Þjóðminjasafnið sem er rukkað inn á. Náttúran lýtur öðrum lögmálum, hún er ekki manngerð. Hún hefur tilvistarrétt í sjálfri sér, óháð okkur mönnum. Við erum með þessu frumvarpi að færa ákveðin lögmál markaðarins upp á náttúrugæði, við leggjum til að maður borgi fyrir að upplifa. Hæstv. ráðherra er ekki bara að leggja til að við greiðum fyrir þjónustu, heldur að allir borgi, þótt þeir séu ekki endilega að nýta bílastæðin eða klósettin eða hvað það er, tiltekið gjald til þess að geta ferðast óhindrað um íslenska náttúru.

Þar erum við komin út á brautir sem ég held að krefjist miklu meiri grundvallarumræðu, þ.e. hvort við séum reiðubúin að færa náttúruna með þessum hætti undir markaðslögmálin. Hér eru stór siðferðileg álitamál undir og ég tel að þau muni þurfa mikinn tíma í vinnu og umræðum á þingi, því að það er grundvallarmunur á því að borga fyrir að njóta, eins og hæstv. ráðherra sagði, eða að borga fyrir veitta þjónustu á staðnum. Þetta er grundvallaratriði sem við verðum að skilja í allri umræðu um náttúrupassa. Við getum verið sammála um að okkur skorti fjármuni, að við þurfum að ráðast í uppbyggingu, en það skiptir máli (Forseti hringir.) að við virðum grundvallaratriði þegar við ákveðum hvaða leið (Forseti hringir.) við ætlum að fara til að afla þeirra fjármuna, virðulegi forseti.