144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[12:54]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta náði ég ekki að reifa ítarlega í ræðu minni en það kom fram hér áðan, í orðaskiptum við hæstv. ráðherra, að fyrir liggur að einkaaðilar geta valið að gerast aðilar að náttúrupassanum. Það er hins vegar ekkert sem kemur í veg fyrir, sé maður eigandi lands, að maður gerist ekki aðili að náttúrupassanum en taki upp gjaldtöku á eigin svæði.

Ég get í sjálfu sér ekki sagt til um það hvort frumvarpið muni virka hvetjandi, eða lögin, á einkaaðila til þess að koma inn í þetta kerfi. Auðvitað hlýtur maður að velta því fyrir sér hvort það virki sem hvati eða hvort það verði hreinlega fordæmi og hvati til þess að afla sér eigin tekna. Það væri þá hugsanlega styttri leið fyrir einkaaðila að afla sér fjár til uppbyggingar á sínu eigin landi að koma sér upp eigin gjaldheimtu og þurfa þá ekki að fara í gegnum hið opinbera ferli til að sækja fjármuni til uppbyggingar. Það er ekkert hér sem tekur fyrir það og maður sæi það fyrir sér, séu einkaaðilar eigendur að vinsælum áningarstöðum, að ekkert kæmi í veg fyrir að þeir færu þá leið. Það er ekkert í frumvarpinu sem kemur í veg fyrir að þeir fari þá leið.

Það er annað sem ég hefði viljað sjá í meðförum þessa máls, þ.e. að sett verði upp einhver hlið eða einhverjar reglur um það ef ætlunin er að fara þessa leið. Það er eitt af því sem mér hefur fundist allir vera sammála um, að fólk er ekki sátt við þessa villta vesturs gjaldtöku sem hefur sprottið hér upp í óþreyju manna þar sem fólk er rukkað fyrir að fara inn á staði. Margir þeirra sem hafa upplifað það telja sig ekki hafa neina tilfinningu fyrir því að fjármunir sem þeir leggja inn í slíka gjaldtöku renni til einhverrar uppbyggingar. Hún er hvergi sýnileg.

Við skulum átta okkur á því að þar liggur líka munurinn í því að greiða fyrir þjónustuna eða greiða fyrir aðgengið eða fyrir upplifunina.

Það er að minnsta kosti ekkert í þessu frumvarpi sem hindrar einkaaðila í að halda áfram gjaldtöku á sínum svæðum.