144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[13:31]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar aðeins áður en ég fer í helstu efnisatriði þessa máls að tala aðeins almennt um pólitíska stöðu þess hér um þessar mundir. Nú er liðið vel á þennan þingvetur og stutt í það að kjörtímabilið sé hálfnað þegar frumvarpið er loksins komið hingað til umfjöllunar í þinginu. Staðan er þannig að það virðist eiginlega enginn vilja kannast við að eiga það frumvarp sem er til umræðu, þ.e. mikil andstaða er við það víða í þinginu, ekki bara í stjórnarandstöðunni heldur líka í þingflokki framsóknarmanna, og mikil andstaða er við það í samfélaginu og meðal hagsmunaaðila í málinu er ekki mjög góð stemning fyrir því. Það höfum við séð á umfjöllun undanfarið og í dag.

Það er svolítið kæruleysislega farið með þennan málaflokk af hálfu hæstv. ríkisstjórnar. Það er nefnilega þannig að þegar við vorum í umræðu um mál þessu tengt fyrir jól, þ.e. um fjárlögin, kom á daginn að verið er að skera verulega niður framlög til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Það er ekki svipur hjá sjón miðað við það sem áður var og langt frá því að mæta þeim þörfum sem uppi eru á ferðamannastöðum vítt um landið vegna mikillar ásóknar ferðamanna og átroðslu.

Á sama tíma og málið er í mikilli pólitískri óvissu er ekki búið að ganga frá því að nauðsynlegt fjármagn sé til viðhalds, uppbyggingar og varðveislu ferðamannastaða. Það er áhyggjuefni. Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig þessu máli reiðir af í þinginu, en eins og ég hef sagt eru efasemdir um það innan annars stjórnarflokksins. Hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt að það fari ekki óbreytt í gegnum þingið. Hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra keppist við að segja að þetta sé ekki hennar hugmynd, þannig að þetta er að mínu mati svolítið kæruleysislega farið með mjög mikilvægan málaflokk.

Fram hefur komið að margvíslegar leiðir eru færar til að mæta því markmiði sem lögunum er ætlað að mæta. En að mínu mati, eftir að hafa legið yfir bæði frumvarpi hæstv. ráðherra og þeim leiðum sem nefndar hafa verið í umræðunni, er þetta versta mögulega útkoman sem er hér til umræðu.

Ég vil aðeins nefna atriði sem ég hefði talið líklegri til að meiri samstaða myndaðist um, til dæmis breytingu á gistináttagjaldi. Líka svokallaðri nýsjálenskri leið, sem fram hefur komið í umræðunni og rædd hefur verið, sem felur í sér að gerður er sérstakur afnotasamningur eða eiginlega gefið út auðlindaleyfi, eða eitthvað slíkt, til fyrirtækja sem innheimta það síðan af viðskiptavinum sínum til þeirra fyrirtækja sem eru að fénýta náttúru Íslands með einum eða öðrum hætti. Þetta er leið þar sem ekki þyrfti að leggja neinar álögur á almennt ferðafólk, Íslendinga eða ferðamenn sem ferðast á eigin vegum, heldur er þetta fyrst og fremst gjald sem fyrirtæki sem fénýta ferðamannastaði með einum eða öðrum hætti greiða og auðvelt fyrir þau að fella það inn í verðskrá sína. Blanda af svona leið og síðan gistináttagjaldi gæti skilað ríkinu alveg nægum tekjum til að standa undir þeirri uppbyggingu sem ráðast þarf í og allir eru sammála um.

Ég vil líka tala um afleiðingar náttúrupassa á upplifun ferðamanna. Mér finnst það vera mikilvægur þáttur í því sem við ræðum hérna hvaða áhrif það hefur á upplifun ferðamanna að þurfa að greiða svona sérstakt gjald og vera síðan undir einhverju sérstöku eftirliti á ferðamannastöðum. Það sem fólk er að sækjast eftir þegar það kemur til Íslands er einmitt svolítið villt óspjölluð upplifun, þ.e. fólk komi inn á náttúrusvæði sem ekki hefur verið mikið átt við, þetta sé svona almenn eign, eitthvað sem er fyrir alla að upplifa. Það hefur verið tilfinning mín af samtölum mínum við ferðamenn sem koma til Íslands að þetta sé einmitt mjög mikilvægur kostur, fólk sem kemur hingað og heimsækir staði þar sem fáir eru. Ég held að menn verði líka að hafa þetta í huga í þeirri uppbyggingu sem nauðsynleg er, að reyna að hafa hana, með leyfi forseta, eins mínímalíska og mögulegt er, þannig að ekki sé verið að byggja upp mikil mannvirki heldur hafa þau eins lítil og hægt er.

Að mínu mati er hægt að útfæra hið svokallaða komugjald með þeim hætti að það mundi ná öllum markmiðum sem hæstv. innanríkisráðherra telur sig vera að ná með því frumvarpi sem hér er til umræðu. Nýlega hafa 17 fyrirtæki greint frá þessu í Kjarnanum og hafa skorað á stjórn Samtaka ferðaþjónustunnar að hún beiti sér fyrir því að tekin verði upp sérstök komugjöld á Íslandi til að fjármagna viðhald og uppbyggingu ferðamannastaða og það held ég að sé mjög ásættanleg leið. Töluvert hefur verið skrifað af hálfu þeirra sem til þekkja um þessi komugjöld og nýlega birtist mjög fróðleg grein þar sem tekin voru fyrir rökin fyrir því að fara þá leið að nota komugjöldin. Það eru mörg rök sem mæla með henni, en meðal þess sem hæstv. iðnaðarráðherra hefur sagt sem mælir gegn því að nota komugjöld er að þá mundum við þurfa að leggja þau gjöld á flug innan lands. Það er auðvitað alveg rétt. Litið er svo á að innanlandsflug sé hluti af flugi innan Evrópska efnahagssvæðisins og ekki sé hægt að setja álögur sérstaklega á einn þátt þar, þ.e. bara á millilandaflug en ekki innanlandsflugið. En hins vegar eru átta eða níu ólík gjöld lögð á innanlandsflugið, sem ég held að ætti bara að vera útfærsluatriði, útfæra það þannig að menn mundu lækka eitthvað af þeim gjöldum á móti því að setja sérstök komugjöld sem þá væru líka í innanlandsflugi. Almenningur á Íslandi ætti því ekki að verða neins var þegar kemur að því. Gjald sem væri 300–400 kr. í millilandaflugi ætti ekki heldur að verða til þess að gera lendingar á Keflavíkurflugvelli svo dýrar að flugfélög ákveði að hverfa frá, eða að minnsta kosti finnst mér það vera eitthvað sem ætti að reyna.

Komugjöld eru eina innheimtuaðferðin þar sem öruggt er að það næst til allra gesta sem koma til landsins alveg undantekningarlaust, bæði flug- og skipafarþegar. Þau þurfa ekki að vera jafn há og náttúrupassinn vegna þess að innheimtuaðferðin er 100% skilvirk, þ.e. hún nær til allra. Kostnaður við innleiðingu og innheimtu komugjalda er líka í lágmarki, ekki þarf sérstakan eftirlitshóp til að fylgja því sérstaklega eftir. Það er mjög ólíklegt að komugjöld valdi samdrætti í eftirspurn eftir Íslandsferðum, sérstaklega þar sem innheimta þeirra fer tiltölulega friðsamlega fram. Fáir verða varir við hana í sjálfu sér og þau geta líka verið þar að auki lág. Þau greiðast með farmiðanum til landsins og þar með er málið bara afgreitt fyrir alla hlutaðeigandi. Þau hafa ekki nein áhrif á upplifun ferðamanna af landinu, þau þarfnast ekki eftirlitsiðnaðar eða náttúruvarða, þau þarfnast ekki nýs skrifræðisbatterís. Innheimtuleiðin er þegar opin og þarfnast lítils undirbúnings. Þetta er sú óumdeilda leið sem nýtur mest fylgis í atvinnugreininni. Með komugjöldum er ekki verið að finna upp hjólið heldur er verið að velja leið sem aðrar þjóðir hafa notað og notað með góðum árangri. Þetta er þekkt og viðtekin aðferð og engin þörf er á sérstöku kynningar-, markaðs- og sölustarfi líkt og innleiðing náttúrupassa mundi krefjast. Mér finnst sem sé að verið sé að fara langflóknustu og langerfiðustu leiðina með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar.

Ég skoðaði í morgun skýrslu sem kom út árið 2013 frá Ferðamálastofu þar sem raktir eru nokkrir kostir í þessum efnum, líka þegar kemur að gistináttagjaldinu, og farið yfir útfærslu margra ólíkra landa í þessum efnum. Nær undantekningarlaust er verið að gera þetta með svokölluðu gistináttagjaldi. Ef sú innheimtuaðferð er þegar til staðar, að menn séu að innheimta á þriðja hundrað millj. kr. með gistináttagjaldinu þá hlýtur það bara að vera útfærsluatriði að breyta því þannig að meiri tekjur komi þar inn. Það má líka nota komugjöldin, það má líka útfæra einhvers konar leið með nýsjálensku leiðinni. Allt eru þetta að mínu mati einfaldari leiðir en sú leið sem hér er kynnt til sögunnar og felst í þessu frumvarpi. Sem síðan er alveg óvíst að hafi meiri hluta í þinginu, alla vega ekki í óbreyttri mynd miðað við það sem fram hefur komið af hálfu annars stjórnarflokksins.

Þetta mál er í raun og veru statt í miklum vanda og vandséð hvernig það leysist nema menn ákveði einfaldlega í atvinnuveganefnd, sem mér skilst að fái málið til umfjöllunar, að gera veigamiklar breytingar á því. Það held ég að sé óhjákvæmilegt. Ég held að staða málaflokksins sé þannig að það væri fullkomlega óábyrgt af öllum hér í þinginu að reyna ekki með einhverjum hætti að koma þessum hlutum í skikk fyrir sumarið. En nú eru bara nokkrar vikur í að helsti ferðamannatími okkar hefjist. Þetta fer allt saman að aukast eftir svona sjö til átta vikur, þá fer traffíkin upp, við vitum hvernig það er. Þá hefst kannski sami söngurinn á helstu ferðamannastöðunum um að menn verði að hafa rétt til þess að byggja upp, menn verði að geta innheimt o.s.frv. Ég óttast að með því að halda óbreyttri mynd á frumvarpinu eins lengi og verið hefur í umræðunni verði til þess að við náum þessu ekki. En það þarf auðvitað, eins og hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt, að gera miklar breytingar á málinu til að það fari í gegnum þingið. Eftir því sem ég hef skoðað þetta betur og betur er ég í raun og veru þeirrar skoðunar að full ástæða væri til að draga málið til baka og flytja það með allt öðrum hætti. Hugsanlega að setjast þurfi yfir það hér í þinginu í þverpólitískri nefnd þar sem menn mundu einfaldlega sammælast um að útfæra einhvers konar komugjöld eða blöndu af þeim leiðum sem til staðar eru, gistináttagjald og komugjald, og koma því í gagnið fyrir sumarvertíð ferðamannaiðnaðarins á Íslandi vegna þess að mjög alvarleg staða blasir við á mörgum stöðum.

Það er líka mjög alvarlegt ef menn reyna að bregðast við átroðslu með vanhugsuðum aðgerðum af því að hlutirnir eru ekki hugsaðir til langs tíma. Því miður finnst mér að við séum enn þá föst í sömu hjólförunum í þessu máli sem hefur hvorki þokað né miðað allt þetta kjörtímabil. Nú erum við að verða komin fram á hálft kjörtímabilið án þess að tekist hafi að leysa þetta mikilvæga mál.