144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[13:46]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég er nokkuð sammála hv. þingmanni; mér heyrðist hann segja að honum fyndist þetta kannski vitlausasta leiðin sem hægt væri að fara í þessum efnum og ef það er hans skoðun þá erum við sammála.

Hv. þingmaður minntist í fyrri hluta ræðu sinnar á það kæruleysi sem var við fjárlagagerðina þegar skornir voru niður fjármunir í Framkvæmdasjóð ferðamanna. Síðan er þetta mál, með þeim endemum sem það er, fyrst að koma núna þegar kjörtímabilið er hálfnað vegna þess að ráðherrann hefur verið lengi að hugsa sig um og komast að þeirri miklu niðurstöðu sem nú liggur fyrir.

En hvað heldur þingmaðurinn, ég held að það séu 146 millj. kr. sem nú eru í framkvæmdasjóðnum: Mun það nægja á þessu ári eða getum við átt von á því að ríkisstjórnin ákveði einfaldlega, eins og gert var í fyrra, að eyða samt miklu meiri peningum og setja það í fjáraukalög? Og jafnvel þó að þetta yrði samþykkt hér fara ekki miklir peningar að streyma á þessu ári, trúi ég, inn í framkvæmdasjóðinn og ekki er heimilt að setja þá þangað, eða hvað?