144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[13:48]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað þannig að í síðustu fjáraukalögum sótti ríkisstjórnin rúmlega 300 millj. kr., ef ég man rétt, á fjáraukanum til að leiðrétta það sem upp á vantaði í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða vegna þess að ríkisstjórnin hafði séð fyrir sér að um haustið 2013 væri óhætt að skera niður framlagið vegna þess að náttúrupassinn væri á næsta leiti.

Í fjárlögunum núna var líka skorið niður vegna þess að ríkisstjórninni sýnist sem svo að náttúrupassinn sé á næsta leiti.

Þetta sýnir að verkstjórnin og samtalið innan ríkisstjórnarhópsins er ekkert, verkstjórnin er í molum. Það er fullyrt af hæstv. iðnaðarráðherra hér að þetta sé ríkisstjórnarmál sem hafi hlotið samþykki í ríkisstjórninni. Það hlýtur að fela í sér að menn setjist þá niður og ræði það sín á milli hvort það fari í gegnum þingflokka eða hvernig framhaldi málsins verði háttað en ekkert slíkt hefur verið í gangi.

Það er meira að segja þannig komið í þessu máli að einn hv. stjórnarþingmaður, Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, upplýsir þjóðina um það að hans upplifun í þessu máli sé eins og honum hafi verið stillt upp við vegg. Nú sé að koma nýtt sumar og málið hafi ekkert breyst frá því að því var mótmælt síðast og hann ætli ekki að samþykkja það. Auðvitað er það þannig að hin pólitíska verkstjórn af hálfu ríkisstjórnarinnar, og þá er iðnaðar- og viðskiptaráðherra þar með talinn, er engin. Það er ekkert samtal á milli þeirra forustumanna sem eiga að véla um þetta mál og undirbúa framkvæmd þess hér í gegnum þingið.

Það er í verkahring stjórnarmeirihluta að klára þetta mál, sem honum hefur ekki tekist. Það eru að verða komin tvö ár. Það er ekki eins og menn hafi byrjað að tala um náttúrupassa eða einhvers konar gjald (Forseti hringir.) í upphafi þessa kjörtímabils; eins og hæstv. ráðherra hefur bent á er þetta löng saga en samt hefur ekkert gerst.