144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[13:50]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Hv. þingmaður minntist á 17 fyrirtæki í ferðaþjónustu sem hafa gert sérstakar athugasemdir við þetta gjald og við þennan náttúrupassa sem kallaður er. Samt sem áður virðist mér að það sé eitt fyrirtæki, og það er náttúrlega alveg gífurlega stórt fyrirtæki hér á landi, í ferðaþjónustu sem hefur mælt þessu bót og það er það ágæta fyrirtæki Icelandair.

Í mínum huga er það þannig að í ákvörðun sinni um að fara þessa leið sé hæstv. ráðherra að taka meira mark á því stóra fyrirtæki en mörgum smáum fyrirtækjum. Út af fyrir sig kemur það mér ekki mjög á óvart vegna þess að mér finnst það vera andi þessarar ríkisstjórnar að halda með þeim stóru. Við höfum til dæmis séð það, svo að við tökum aftur veiðigjöldin og áherslur ríkisstjórnarinnar á að leggja skatt á bóka- og tónlistarútgáfu og þar fram eftir götunum.

Mig langar að spyrja þingmanninn: Er ég á algjörum villigötum í því að finnast hér mikil áhersla á að fylgja hinum stóru en láta þá litlu um að bjarga sér sjálfir?