144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[13:57]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Það er alveg rétt sem hann segir. Það er mjög sjaldgæft að maður verði var við að innheimtu sé beint að einstaklingum vegna náttúru heils lands með þeim hætti sem hér um ræðir. Ég get bara rifjað upp tvö tilvik þar sem maður greiðir sérstaklega fyrir það að fara á tiltekna fjallstoppa í útlöndum. Í Kilimanjaro í Afríku er sérstakt þjóðgarðagjald sem menn greiða þegar þeir fara þar inn og það er líka skylt að ráða leiðsögumenn og burðarmenn af svæðinu. Jafnvel þótt menn vilji ekki ferðast með burðarmenn þá er þeim samt sem áður gert að gera það. Og vilji menn fara síðustu 100 metrana upp á El Teide, sem er hæsta fjall Spánar, þarf að kaupa sérstakt leyfi til að gera það. En það er bara innheimt á staðnum þegar maður er kominn og er að hefja gönguna.

En með svona heildstæðu kerfi eins og hér er verið að kynna til sögunnar, ef maður bara rennir í gegnum skýrsluna frá Ferðamálastofu 2013 og allar þær mismunandi útfærslur sem þar má finna á innheimtu í þessum efnum, er auðvitað ljóst að þarna er verið að flækja málin um of. Íslenska ríkið rukkar í tekjur, gjöld og skatta um 650 milljarða á hverju ári og er með innviði til þess. Ef menn ætla að búa til nýja innviði þarf það auðvitað að vera fyrir einhverri alvöruupphæð. En vera að búa til nýja innviði, nýtt innheimtukerfi fyrir það sem hér er á ferðinni er allt of flókið og of mikið (Forseti hringir.) og of dýrt.