144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[13:59]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta skiptir máli vegna þess að það sem ég tel vera stærst og alvarlegast í þessu máli og ætla að gera að umtalsefni í mínum ræðum er almannarétturinn. Það er kjarnaatriði í málinu að það að gera hinn einstaka ferðamann og jafnvel þann sem ferðast algerlega á eigin vegum, hefur ekki keypt þjónustu af einum eða neinum, hefur bara séð um sína ferðaskipulagningu sjálfur og er á ferðinni, þess vegna Íslendingur, að einhverjum gjaldstofni í þessu samhengi almennt vegna fjárfestinga í innviðum atvinnugreinar gengur ekki upp. Ég tel að það standist ekki almannaréttinn.

Við getum velt því fyrir okkur hvernig þetta mundi líta út í augum Skandínava þar sem almannarétturinn er kannski enn betur varðaður og treystur í sessi en hér, segjum bara í Svíþjóð. Svíar komust auðvitað að þeirri niðurstöðu að almannarétturinn sem er ævaforn í Svíþjóð hlyti náttúrlega þar með að gilda á öllu Evrópska efnahagssvæðinu þegar þeir voru gengnir í ESB. Jú, það var niðurstaðan. Þetta var þá réttur sem fylgdi því að þú ert borgari með tiltekin réttindi á þessu svæði. Niðurstaðan er sú að Rúmenar og Búlgarar geta komið og sumir tínt ber í Svíþjóð í skógum þar og það tilheyrir almannaréttinum. Ég hugsa að menn yrðu langleitir í Svíþjóð ef ætti að fara að selja inn í skógana. Þeir mundu eitthvað segja sem hafa staðið á þeim rétti og munu standa fast á honum, sem er hluti af því sama og við munum tala um hér, rétti manna til að ferðast um landið.

Þetta er að mínu mati megingallinn. Þessi aðferð gengur bara ekki upp vegna þess að andlag gjaldtökunnar er fært frá rekstraraðilum, fært frá fyrirtækjum, fært frá þeim sem nýta náttúruna yfir á hinn einstaka ferðamann og það er ómögulegt. Við verðum að finna leiðir fram hjá því. En ég þakka að öðru leyti hv. þingmanni fyrir. Hann hefur svipaða upplifun af þessu og ég. Ég hef einu sinni rekist á það að maður þurfti að borga fyrir að ganga upp á fjall, ég komst reyndar ekki, það var á Fuji í Japan. Þá er það að vísu þannig (Forseti hringir.) að maður greiðir ekki fyrir að ganga upp á fjallið en það þarf leyfi, og mánuðina október til mars er maður skyldugur til að ráða með sér reyndan leiðsögumann. Þá er maður að borga fyrir þjónustuna (Forseti hringir.)sem maður fær til að tryggja sitt eigið öryggi en ekki í rauninni fyrir að (Forseti hringir.) ganga upp á fjallið.