144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:02]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það ber allt að sama brunni í þessum efnum. Við hefðum átt að vera búin að fá í umhverfis- og samgöngunefnd drög að nýjum náttúruverndarlögum á haustmánuðum samkvæmt sérstöku samkomulagi sem gert var við þáverandi hæstv. umhverfisráðherra, Sigurð Inga Jóhannsson, síðastliðinn vetur. Hugmyndin var sú að umhverfisnefnd mundi sjá frumvarpið. Það er meðal annars skilgreindur almannaréttur og réttur manna til frjálsrar farar um landið. Þar mundi þingið afgreiða það fyrir fullt og fast hvernig það ætlaði að haga þessum málum til framtíðar. Gildistöku þess lagabálks, jafn góður og hann var, hefur verið slegið á frest og það bólar ekkert á nýrri vinnu frá ríkisstjórninni. Það ætti auðvitað að vera þannig, ef verið væri að vinna að þessu eins og hjá fólki í sameiginlegri stjórn ríkisins, að menn væru í samtali um þetta þannig að frumvarpið kæmi fram á sama tíma og menn hefðu samhæfðar hugmyndir um það hvernig þessi mál skyldi leysa. En það bólar ekkert á því vegna þess að það er auðvitað ekkert samtal í gangi. Það er greinilega ekki verið að ræða það innan ríkisstjórnarinnar hvernig menn ætla að fjármagna uppbyggingu á ferðamannastöðum ef þetta frumvarp nær ekki fram að ganga. Menn eru einfaldlega búnir að gera ráð fyrir því að það geri það. Á sama tíma segja mér menn úr öðrum stjórnarflokknum að þeir hafi margt við frumvarpið að athuga og það fari alls ekki óbreytt í gegnum þingið og sumir hafa sagt að þeim sé bara stillt upp við vegg og þeir ætli ekki að styðja þetta. Auðvitað þarf einhvers konar verkstjórn og samhæfingu til að svona mál geti gengið eftir. Þetta mál ber þess vitni að svo sé alls ekki.