144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:22]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Svarið er í stuttu máli: Já. Ef við förum aðeins yfir fjárfestingaráætlunina og það allt saman: Hver var pælingin? Menn sáu að ferðaþjónustan hafði vaxið mjög og menn sáu áganginn á ferðamannastöðunum. Menn sáu augljósa fjárfestingarþörf í innviðum í greininni svo að greinin sjálf og ágangur ferðamanna mundi ekki eyðileggja nákvæmlega það sem greinin er að vaxa á, mundi ekki saga greinina undan sjálfri sér. Augljóst mál.

Það þarf að fjárfesta í þessu. Það var röksemdafærslan á bak við fjárfestingaráætlunina að það væri réttlætanlegt að taka eitthvað sem er arður af eigum ríkisins — að hluta til, alls ekki allan, heldur að hluta til — og nota til fjárfestinga í annarri uppbyggingu sem skapar af sé arð í framtíðinni. Þetta blasti við sem augljóst viðhalds- og uppbyggingarverkefni, að bæta innviði ferðaþjónustunnar, uppbygging ferðamannastaða.

Frá sjónarhóli ríkisins er þetta eitthvað sem er alveg fullkomlega réttlætanlegt að gera. Þetta er aðgerð sem skapar betri umgjörð utan um vaxandi atvinnugrein. Við erum að gera þetta á öðrum sviðum, það er hlutverk ríkisins að skapa umgjörð og skilyrði fyrir blómlegt atvinnulíf. Af hverju er það ekki hlutverk ríkisins að gera það í tilviki ferðaþjónustunnar? Er það ekki rosa góð hugmynd að nota arð sem er af eigum ríkisins annars staðar til að bæta forsendur annarra atvinnugreina? Þetta er góð hugsun.

Ég held að við eigum bara að skoða það. Ef það vantar núna milljarð til þess að fara í þessa augljósu uppbyggingu (Forseti hringir.) ferðamannastaða eigum við að íhuga blandaðar leiðir og reyna að ná í (Forseti hringir.) þessa peninga þannig að fólk (Forseti hringir.) borgi þá án þess að (Forseti hringir.) hugsa um það og við spillum ekki ævintýrinu (Forseti hringir.) í ferðamennskunni.