144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:29]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Mér þótti ræða hv. þingmanns um margt athyglisverð. Hann rifjaði upp það skemmtiatriði sem allur ferill þessa máls hefur verið frá upphafi þegar ríkisstjórninni lá svo mikið á að breyta öllu sem ákveðið hafði verið áður en hún tók hér við að í flumbruganginum lækkaði hún virðisaukaskatt á gistingu sem ákveðinn hafði verið 14%. Fyrir það áttu að fást 1,5 milljarðar árið 2014 og væntanlega miklu meira vegna þess að ferðamannafjöldinn hefur vaxið miklu meira en ráð var fyrir gert þegar þær áætlanir voru gerðar. Ég held meira að segja, virðulegi forseti, að á Þingvöllum séu jafn margir ferðamenn núna í janúar og þeir voru í júní fyrir einhverjum árum síðan, þannig að hér hefur náttúrlega orðið alveg gífurleg breyting á.

Ég er sammála því að við hefðum átt að hafa virðisaukaskatt á gistingu 14%, þá værum við ekki í þessum vandræðum núna. En hins vegar þá finnst mér við líka þurfa að hugsa um það að þeir sem nýta náttúruauðlindirnar eins og bara náttúruna sjálfa, greiði eitthvert gjald. Í því sambandi er ég hrifnust af því sem kallað er nýsjálenska leiðin. Hver er afstaða þingmannsins til hennar?