144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:36]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt skemmtileg nálgun á þetta mál, stígarnir á Þingvöllum. Á hvaða hátt eru þeir frábrugðnir hjólreiðastígum í Reykjavík eða bara einfaldlega vegum um landið? Ef við viljum byggja upp vegina, samgöngur, eigum við þá að koma fram með frumvarp um vegapassa, einhvers konar passa sem menn verða að hafa til þess að mega keyra á vegunum? Vegirnir eru innviðir, þeir eru mjög mikilvægir innviðir. Fjarskipti, internetið, líka mjög mikilvægt. Eigum við að hafa einhvers konar netpassa sem fólk verður að kaupa til að geta verið á internetinu? Fleira má nefna. Eigum við að innleiða svona passahugsun gagnvart allri innviðauppbyggingu í landinu? Auðvitað ekki. Hún er fáránleg. Hún er klunnaleg. Hún er asnaleg. En borgum við til uppbyggingar veganna? Já, við gerum það. Við gerum það í gegnum bensínið og vörugjöld á bílum og hitt og þetta sem við borgum sem rennur síðan til vegagerðar. Það er ekkert deilt um það. Þetta eru umtalsverðar upphæðir. Fólk borgar þær. Það sjá allir þörfina á því. Hún er bara innheimt þannig að fólk borgar þetta á einhverju stigi þegar það þarf að nýta sér vegina, til dæmis eins og þegar það kaupir sér bensín. Ég er viss um að einhver gjöld einhvers staðar sem ég borga fyrir að nota internetið, renna með einhverjum hætti í ríkissjóð, ég þekki það bara ekki. Við höfum í þessari innviðauppbyggingu, og sérstaklega varðandi vegina, bara fundið leiðir til þess að láta notkunina einhvern veginn greiða af sér fé sem rennur til uppbyggingarinnar. Sama hugsun á auðvitað að gilda þegar við hugsum um göngustígana á Þingvöllum.