144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:38]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Forseti. Hér ræðum við frumvarp um náttúrupassa. Það er allt í lagi að halda því til haga að það er vel og því ber að fagna að ríkisstjórnin skuli nú loks eftir tveggja ára niðurskurð og fjársvelti til uppbyggingar ferðamannastaða og verndar þeim og algjöran fjárskort til landverndar sjá að sér og reyna með einhverjum hætti að merkja tekjustofna til uppbyggingar ferðamannastaða. Við erum nefnilega öll sammála um þörfina á að vernda ferðamannastaði enda hefur fjöldi ferðamanna sem hingað vilja koma til að njóta íslenskrar náttúru vaxið gríðarlega, sem betur fer. Aðdráttarafl íslenskrar náttúru ótvírætt en ekki síður frelsið sem ferðamenn upplifa, erlendir sem innlendir. Við skulum halda því til haga að gjaldtaka fyrir aðgang að íslenskri náttúru verður ekki bara af erlendum ferðamönnum, sem hæstv. ráðherra talaði um sem massa í ræðu hér áðan og vildi endilega græða á hinum erlenda massa, heldur verða íslenskir ferðamenn sem vilja ferðast um landið sitt frjálsir og óháðir líka rukkaðir.

Ferðamönnum hefur fjölgað svo gríðarlega að löngu er orðið tímabært að mynda markvissa stefnu í þessari atvinnugrein. Þörfin er fyrir löngu orðin knýjandi að öllu leyti, ekki bara sem viðbragð við ágangi á ferðamannastaðina heldur líka til að mynda hér heildstæða stefnu í þessari atvinnugrein, vissulega út frá uppbyggingu ferðamannastaða. Við þurfum almenna stefnumótun um vernd íslenskrar náttúru og hvernig við viljum stýra ágangi fólks, hvernig við viljum mennta fólk í greininni, hvernig við viljum hafa umgjörð tekjuöflunar og ráðstafa þeim tekjum til umhverfisverndar og varðveislu viðkvæmra staða. Við þurfum að upplýsa fólk, kynna Ísland á erlendri grundu, vera í almennilegri markaðssetningu og hafa einhverja langtímasýn á það hvernig við viljum byggja þessa atvinnugrein upp. Ég sakna þess að sjá ekki meira af því.

Við vitum öll að við þurfum fjármuni til að útbúa stefnu í ferðaþjónustu og byggja greinina upp. Það eru ekki fjármunir, eins og ég er að segja, sem fara í einhvers konar allsherjarstefnumótun heldur í þetta viðbragð við að vernda ferðamannastaði. Gott og vel. Hæstv. ráðherra telur bestu lausnina að rukka fólk fyrir að vilja horfa á og snerta náttúruna, náttúruna sem við eigum öll og höfum aldrei og þurfum ekki að borga fyrir heldur ganga vel um, varðveita og vernda. Ekki vill ráðherrann gjaldtöku á fyrirtækin sem skila svo sannarlega auknum hagnaði við fjölgun ferðamanna, heldur vill hún leggja gjaldtöku á og skattleggja einstaklinga fyrir að njóta náttúrunnar. Það er sá andi laganna sem ég set mestan fyrirvara við og gagnrýni mjög, en líka framkvæmd þeirra og umsýslu sem er ansi óljós.

Allar aðrar leiðir eru að mínu viti betri til tekjuöflunar og gagnast ferðaþjónustunni betur en leið ráðherra. Það er nýbúið að hækka virðisaukaskatt á afþreyingarhluta ferðaþjónustunnar sem kemur til tekna árið 2016. Þar við bætist hækkun virðisaukaskatts á aðra tekjuliði ríkissjóðs tengdum ferðaþjónustu á borð við gistináttagjaldið sem er verið að afnema og mun ekki verða endurnýjað og fellur úr gildi 2017 að vilja hæstv. ráðherra. Ég velti því fyrir mér hvort ekki sé tilvalið í staðinn fyrir að innleiða skattlagningu á för og frelsi einstaklinga að taka hluta af þessum virðisaukaskatti á afþreyingarhluta ferðaþjónustunnar og merkja þá fjárhæð uppbyggingu á ferðamannastöðum og verndun þeirra.

Ég minni á að í tíð fyrrverandi fjármálaráðherra, sem nú situr í stól forseta fyrir aftan mig, var úthlutað alls 750 millj. kr. sem komu til greiðslu árið 2012 eða 2013 til uppbyggingar og verndunar á ferðamannastöðum og voru einmitt í tengslum við fjárfestingaráætlun fyrrverandi ríkisstjórnar til þriggja ára sem ekki var síðan haldið áfram með og við erum búin að ræða svolítið hér að undanförum. Til viðbótar við þá risafjárhæð sem merkt var sérstaklega uppbyggingu ferðamannastaða var gistináttagjaldið lögfest, sem ég tel — og er sammála þeim þingmönnum sem hingað hafa komið og talað um það — langeinföldustu og skilvirkustu leiðina til þess að ná inn tekjum af ferðaþjónustunni.

Höldum aðeins áfram áður en ég kem inn á anda laganna að ræða framkvæmdina og umsýsluna á náttúrupassafrumvarpinu. Mér finnst nefnilega margt mjög óljóst í frumvarpi hæstv. ráðherra. Hver er kostnaðurinn við innheimtu náttúrupassans eða gjaldsins? Á gjaldtakan að fjármagna kostnaðinn við innheimtu náttúrupassans? Hversu margir starfsmenn eiga að stunda eftirlit með borgurum og ferðamönnum sem hingað koma, ferðamönnum sem voru alls 1 milljón á síðasta ári?

Í frumvarpinu er þess getið og í umsögn fjármálaráðuneytisins er það einmitt gagnrýnt að einungis sé gert ráð fyrir einu starfsgildi í frumvarpinu til að hafa eftirlit með því að einstaklingar séu eigendur að gildum náttúrupassa. Ein manneskja á að hafa umsjón með milljón ferðamönnum og okkur hinum sem búum hér. Þetta verður erfitt starf enda gerir, eins og ég sagði, fjármálaráðuneytið alvarlegar athugasemdir við það að ekki sé gert ráð fyrir starfsfólki til að innheimta og hafa eftirlit með náttúrupassanum og sektum sem eru einna skýrasta ákvæðið í þessu frumvarpi, þ.e. hversu háar sektirnar eru og viðurlögin við því að vera ekki með náttúrupassann. Hverjir eru þessir náttúruverðir sem er alltaf verið að tala um? Eini staðurinn þar sem fjallað er um náttúruverði — það er ekki í frumvarpinu sjálfu — er á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins þar sem ráðuneytið reynir að koma á framfæri svörum við þeim spurningum sem vakna vegna náttúrupassans. Þar er talað um náttúruverði. Það er ekki minnst á þá einu orði í frumvarpinu. Hverjir eru þessir náttúruverðir? Eru þeir huldufólk sem á að vera í þessum störfum, eins og hv. þm. Guðmundur Steingrímsson talaði um, og vera um allar koppagrundir og poppa upp milli þúfna og gera manni lífið leitt? Ég átta mig ekki alveg á þessu. Það er ekkert minnst á þetta.

Eins og ég sagði hérna áðan þá er andi frumvarpsins sem mig langar að minnast á hér og mér finnst einna mikilvægastur og prinsippið sem liggur þar að baki, ef ég má, með leyfi forseta, sletta svolítið. Það er nefnilega aðförin að almannaréttinum sem frumvarpið felur í sér. Almannarétturinn felur í sér að okkur sé öllum heimilt að fara um landið og njóta náttúrunnar svo fremi sem gengið er vel um og engu spillt. Það er heimilt að fara um óræktuð eignarlönd án sérstaks leyfis. Ég er aðeins að rifja upp fyrir okkur öllum almannaréttinn. Það er í rauninni hægt að takmarka almannaréttinn, en takmarkanirnar eru mjög litlar á almannaréttinum. Rétthöfum lands er heimilt að takmarka með merkingum ferðir manna um eignarlönd. Lönd í eigu ríkisins eru öllum opin með fáum undantekningum, en frjálsa för fólks samkvæmt almannarétti er aðeins hægt að takmarka á afmörkuðum svæðum í þjóðgörðum þar sem það er nauðsynlegt til að vernda plöntur, dýr, menningarminjar og svo framvegis. Önnur aðför að almannaréttinum er ekki leyfð þegar kemur að lagaskýringu á almannaréttinum.

Við lestur þessa frumvarps vakna náttúrlega þær spurningar hvort ekki sé verið að vega allillilega að almannaréttinum. Undir það taka félagasamtök á borð við Landvernd, Ferðafélag Íslands, Ferðaklúbburinn 4x4 og Samtök útivistarfélaga sem sendu frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja náttúrupassann og gjald á einstaka staði vega stórlega að almannarétti um frjálsa för fólks um landið. Í yfirlýsingu þeirra frá því í febrúar síðastliðnum segir meðal annars að þau telja að náttúrupassi og gjald inn á einstaka staði vegi stórkostlega að almannaréttinum við frjálsa för fólks um óræktað land. Þar er einnig varað sérstaklega við hugmyndum að girða af náttúruperlur í þeim tilgangi að taka gjald af svæðum og hefta þannig för almennings. Einnig er lagst gegn áformum sem stangast á við mikilvægan rétt fólks til að njóta landsins og náttúru þess. Þar er líka bent á að fara beri leiðir sem ekki brjóti á almannaréttinum eins og blandaða leið komu- og brottfarargjalds og breytingar á gistináttagjaldi. Vernd almannaréttarins til að ferðast um náttúruna, njóta hennar og þurfa ekki að greiða fyrir, þurfa ekki að hafa áhyggjur af því að verið sé að sekta mann í hverju túni eða bak við hvern birkilund — því er ég svo sannarlega sammála.

Frumvarp iðnaðar- og viðskiptaráðherra snýst um að vega að almannarétti, hefð sem við getum rakið aftur til landnáms og er svo sannarlega hluti af íslenskri sögu og samfélagi og menningu, þ.e. frelsið til að ferðast um náttúru landsins og njóta hennar, þetta ferðafrelsi. Það sem ráðherra vill gera er að vega að almannaréttinum, vega að ferðafrelsinu, auka eftirlit með borgurunum, auka skattlagningu á einstaklinga fremur en stöndug fyrirtæki og ekki síður að græða á hinum erlenda massa sem ráðherra kallaði erlenda ferðamenn hér rétt áðan.

Erum við í alvöru sammála um að þetta sé rétta leiðin til að auka framgang ferðaþjónustunnar og efla þessa atvinnugrein með náttúruvernd og frjálsan almennan aðgang okkar allra í huga? Ég leyfi mér að efast stórlega um það. Ég leyfi mér líka að vonast til þess, hæstv. forseti, að þetta frumvarp verði ekki að lögum nema með miklum breytingum og að náttúrupassinn muni ekki koma til framkvæmda.