144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:52]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og ræðuna þar sem hann fór í sama kjarna og ég í ræðu minni hérna áðan, þ.e. varðandi almannaréttinn sem er okkur svo heilagur. Hann er sögulegur og menningarlegur. Ég þakka líka fyrir þetta tækifæri til þess að skýra mál mitt betur. Ég var kannski ekki nógu skýr í ræðu minni áðan.

Nei, við munum ekki styðja þetta frumvarp að svo stöddu, alls ekki, vegna þess að við munum ekki styðja aðför að almannaréttinum. Við munum ekki styðja frumvarp sem vegur að frelsi fólks til þess að njóta, upplifa og ferðast um náttúru Íslands. Það munum við alls ekki gera, það munum við aldrei gera.

Ég geld líka varhuga við þeim tón sem ég heyrði í orðum ráðherra, þ.e. að hægt væri að græða á erlendum ferðamönnum, að við ætluðum svo sannarlega að græða þeim, þessum erlenda massa. Græðum nú svolítið meira á þeim og rukkum þá alveg út í það óendanlega. Reynum að græða sem mest á þeim.

Það get ég heldur ekki stutt. Ég vil frekar sjá uppbyggingu og framtíðarsýn þegar kemur að ferðaþjónustunni.

Við þurfum að fara að hugsa þessi mál heildstætt. Við þurfum að horfa til framtíðar. Við þurfum að velta því fyrir okkur hvernig atvinnugrein viljum við í raun byggja hér upp. Þegar við hugum að uppbyggingu ferðaþjónustunnar þurfum við svo sannarlega að halda í almannaréttinn og við þurfum að halda í frelsið sem er ekki bara okkur svo kært sem búum hér, störfum og lifum, heldur líka þeim sem koma hingað til lands og vilja njóta íslenskrar náttúru. Það er frelsið sem fólk sækist eftir, ferðafrelsi, frelsi til þess að njóta og upplifa, í stað þess að hafa alltaf hangandi yfir sér að sekt liggi við þeirri einlægu mannlegu ósk að vilja njóta náttúrunnar, að við séum sektuð, að við þurfum að borga gjald fyrir það.

Það er svo sannarlega miklu betra að borga gistináttagjaldið (Forseti hringir.) og ég held ég að það sé svona nokkurn veginn það sem við getum öll verið sammála um, en ekki þetta.