144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:54]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Skorturinn á því að nálgast málið undan sjónarhorni grundvallarafstöðu kemur mjög berlega fram í frumvarpi hæstv. ráðherra. Ég fann ekki orð þar um almannarétt. Það sem vakti hins vegar athygli mína, og hv. þm. Rósa Björk Brynjólfsdóttir gerði raunar að ítarlegu umræðuefni í ræðu sinni, var að þar er ítarlega útfært með hvaða hætti refsa á mönnum og sekta þá sem ætla sér þá ósvinnu að njóta eigin lands eins og þeir og áar þeirra hafa gert frá því að land byggðist. Mér finnst það fullkomlega út í hött.

Ef það er eitthvað sem ég sakna úr umfjöllun hv. þingmanns sem talaði áðan þá er það það sem birtist á vefsíðu ráðuneytis hæstv. ráðherra þar sem sá möguleiki er beinlínis dreginn fram og ýtt að mönnum að þeir sem eiga lönd sem seld eru undir einkaeignarrétt geti síðan líka sett upp sitt eigið kerfi til þess að innheimta. Þá erum við komin með flóru mismunandi kerfa: Einn innheimtir þetta, annar innheimtir annað og síðan innheimtir hæstv. ráðherra Ragnheiður Elín Árnadóttir sérstaklega fyrir reisupassann sinn.

Hið upphaflega markmið er gjörsamlega úti í vindinum, þ.e. að koma samræmi á, greiða úr og búa til samræmda stefnu um það sem skapaði kaos undir handarjaðri þessarar ríkisstjórnar og verkleysu á þessu sviði. Það er líka mikilvægt að benda á það.

Ég spyr hv. þingmann: Þegar maður hugsar til þess að við höfum hér á síðustu árum eytt miklum tíma í að reifa breytingar á stjórnarskrá þar sem meðal annars náttúra og ferðafrelsi voru undir, er þá ekki ljóst þegar við stöndum andspænis atlögu framkvæmdarvaldsins gegn því sem við teljum að séu ein af helgustu grundvallarréttindum Íslendinga, að þá sé (Forseti hringir.) gengið alla leið og menn taki upp varðstöðu gagnvart framtíðinni og ofríki valdsherranna (Forseti hringir.) í framtíðinni og slái það í gadda í stjórnarskrá?