144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:57]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu og eldmóðinn sem er ekki að ástæðulausu því að svo sannarlega fyllir þetta frumvarp fólk eldmóði vegna þess að í því er svo sannarlega vegið að almannaréttinum. Ég vona innilega að ekki verði gerðar neinar breytingar á stjórnarskránni í þessu efni af því að það er okkar — það er erfitt að segja að þetta sé heilagur réttur, en þetta er svo sannarlega sterkur menningarlegur réttur okkar Íslendinga, almannarétturinn. Ég er sammála hv. þingmanni, ekki er kveðið skýrt á um almannaréttinn í frumvarpi ráðherra eða skilgreiningu á ferðamannastöðum. Ekki er skilgreint með nokkrum hætti hvað ferðamannastaður er. Það er opið. Opnað er upp á gátt fyrir alls kyns gjaldtöku einkaaðila sem og hins gjaldtöku opinbera, gjaldtöku á okkur, borgara og íbúa landsins, fyrir það að ferðast um, njóta, horfa og skoða náttúruna, réttur sem okkur hefur jú sannarlega verið heilagur frá því að landið var numið.