144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[14:58]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir mjög góða ræðu og er svo hjartanlega sammála hv. þingmanni um hve almannarétturinn er mikilvægur. Það sem ég velti fyrir mér er af hverju verið er að fara svona flókna leið í að gera einfaldan hlut. Það er alveg ljóst að ferðamenn flytja inn í hagkerfið mikla fjármuni og mér finnst mjög skrýtið af hverju sé þá bara ekki hægt að taka þetta úr okkar sameiginlegu sjóðum, af því við erum að fá inn í okkar sameiginlegu sjóði mikla peninga. Væri ekki bara einfaldast að sú uppbygging sem þarf að eiga sér stað yrði borguð öllum til hagsbóta, Íslendingum og okkar ágætu gestum?

Það hefur alltaf verið þannig að þegar á að flækja hluti með nýjum skatti, því að þetta er náttúrlega ekkert annað en skattur, skilar það sér oft illa í uppbyggingu. Horfum á nefskattinn á RÚV, hann hefur aldrei skilað sér allur til RÚV. Sporin hræða.

Hvað þætti þingmanninum vera heppilegasta leiðin til að þrýsta á að við fáum þessa nauðsynlegu uppbyggingu? Eða er möguleiki að við eigum að fara að lifa einhverju lífi, eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir benti á, þar sem maður er stöðugt að passa sig á að fara ekki inn á stíginn, sem er auðvitað alveg öfugt við hina víðfrægu sögu um Rauðhettu? Er ekki betra að við höldum okkur einmitt á stígunum sem við erum sameiginlega að byggja upp? Af hverju er ekki hægt að fara í þessa uppbyggingu? Af hverju er þetta búið að taka svona langan tíma þegar ljóst er að hagvöxtur okkar er meðal annars út af auknum straumi ferðamanna?