144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:00]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg) (andsvar):

Ég gæti varla orðað þessa spurningu betur og þakka hv. þingmanni fyrir spurningarnar. Ég á mjög erfitt með að skilja hvers vegna ekki er hægt að eyrnamerkja úr sameiginlegum sjóði og tekjustofni ríkissjóðs ákveðna fjárhæð sem á síðan að fara til uppbyggingar ferðamannastaða. En ég vil líka sjá eyrnamerkingu á fjármagni sem á að fara í einhvers konar sýn á umrædda atvinnugrein. Hvernig viljum við hafa hana? Hvernig viljum við byggja hana upp? Jú, það er svo sannarlega nauðsynlegt að hafa tekjustofna, afmarkaða tekjustofna, úr okkar sameiginlegu sjóðum til þess að vernda ferðamannastaði og stuðla að uppbyggingu og koma í veg fyrir ágang, en að auki finnst mér líka að þarna ætti að koma til tekjustofn sem færi í einhvers konar markvissa uppbyggingu á ferðaþjónustunni. Þá er ég að tala um menntun, eins og ég minntist á áðan í ræðu minni, og menntunarstigið, við þurfum að mennta okkur í þessari atvinnugrein. Við höfum setið á hælunum þegar kemur að því. Við þurfum að gefa í þegar kemur að menntun. Við þurfum líka að gefa í þegar kemur að umsýslu og þjónustu. Og síðan að sjálfsögðu vil ég sjá gjaldtöku á fyrirtækin sem hafa verið að blómstra. Þeim hefur fjölgað og þau hafa verið að skila miklum hagnaði einmitt vegna þess að atvinnugreinin hefur verið að blómstra, en ekki auka gjaldtöku á einstaklingana og hefta þar með för þeirra fyrir það eitt að vilja ferðast um landið.

Ég þakka ábendinguna hjá hv. þingmanni einmitt um þetta. Ég er að sjálfsögðu sama sinnis og minn flokkur að fara í sameiginlegu sjóðina og taka þar úr og merkja það í einhvers konar uppbyggingarsjóð, sjóð sem gagnast ferðaþjónustunni. Ég mundi gjarnan vilja hafa séð miklu skýrari ákvæði um þetta í frumvarpinu. Ég vonast svo sannarlega til að í frumvarpi umhverfisráðherra, sem á að koma að uppbyggingu í ferðaþjónustunni út frá umhverfisvernd, muni koma enn skýrar fram framtíðarsýn (Forseti hringir.) í uppbyggingu á ferðaþjónustunni.