144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:23]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst af öllu vil ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu, innblásna og rómantíska, fallega. En það er eitt sem mig langar að spyrja hv. þingmann út í, vegna þess að ég er ekki alveg viss um að ég skilji skattheimtu eins og hún, þ.e. hv. þingmaður vitnaði til þess að ferðagreinin sjálf hefði boðist til þess að hækka gistináttagjald og greiða það. En nú er það ekki greinin sjálf sem greiðir gistináttagjaldið heldur þeir sem gista, þ.e. að greinin er eingöngu innheimtuaðili. Þetta er í sjálfu sér gjald sem lýtur sömu lögmálum og vaskur, það er notandinn sem borgar en ekki sá sem er að innheimta. Mig langar því til að fá skýringu á þessu vegna þess að mér fannst þetta skjóta skökku við í þeim orðum þingmannsins að þeir sem nýta eigi að greiða, en ef talað er um gistináttagjald eða gistináttaskatt þá er það sannarlega ekki sá sem er að nýta heldur sá sem er að njóta, þ.e. viðskiptavinurinn sem borgar.

Ég spyr líka, af því að við erum að tala um atvinnugrein sem er jú að gera út á persónur, hvar hv. þingmaður telji að kostnaðarauki sem verður í greininni vegna t.d. breyttrar skattheimtu eða annars, hvar hv. þingmaður telji að reikningurinn fyrir slíkt lendi endanlega?